Endurreisn íslenska bankakerfisins

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 11:32:38 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

endurreisn íslenska bankakerfisins.

[11:32]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga málefni. Hún fór í ágætu máli yfir aðdragandann að stofnun nýju bankanna. Mér hefur fundist, eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, mikill skortur á gagnrýninni hugsun innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í umræðunni þegar kemur að svo umdeildum málum sem endurreisn bankakerfisins er. Eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir nefndi hefur stefnumótunin nær algjörlega farið fram hjá Alþingi. Eigum við ekki að læra eitthvað af hruninu? Það er kannski þess vegna sem við, nokkrir þingmenn, þar á meðal sá sem hér stendur, höfum beðið Ríkisendurskoðun um að gera úttekt á gjörningum framkvæmdarvaldsins frá hruni. 183 milljarðar hafa farið inn í stóru bankana þrjá, tugir milljarða hafa farið inn í aðrar fjármálastofnanir og tryggingafyrirtæki og það er mikilvægt að Alþingi standi sig í stykkinu þegar kemur að því að skoða þessi mál. Við megum ekki falla í það far, eins og í aðdraganda hrunsins, að samþykkja allt sem framkvæmdarvaldið hefur verið að gera, leggja blessun okkar yfir það og loka augunum, heldur verðum við að vera gagnrýnin í hugsun og fylgjast grannt með framkvæmdarvaldinu þegar kemur að þessum hlutum. Það er hlutverk þingsins.

Þá langar mig aðeins að tala um framtíðina. Ég hef áhyggjur af þeirri fábreytni sem mér sýnist að muni að öllu óbreyttu verða á íslenskum fjármálamarkaði ef ekkert verður að gert. Við munum horfa upp á bankakerfið þar sem þrír risar munu ríkja á markaðnum, stóru viðskiptabankarnir þrír, og sparisjóðirnir, verði ekkert að gert, munu því miður hverfa í þá hít. Það er ekki mín framtíðarsýn, eða okkar í Framsóknarflokknum. Ég hvet hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra til að svara spurningum um það hver framtíðarsýn hans er gagnvart uppbyggingu fjármálakerfisins þegar við horfum til sparisjóðanna sem eru svo mikilvæg eining í fjármálakerfi landsins.