Endurreisn íslenska bankakerfisins

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 11:39:25 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

endurreisn íslenska bankakerfisins.

[11:39]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda Eygló Harðardóttur fyrir að vekja máls á þessu. Mig langar að koma aðeins inn í umræðuna. Það er í rauninni hægt að segja um bankakerfið að markmiðið sé í sjálfu sér, eins og ég sé það, ekkert endilega að endurreisa það heldur endurmóta það. Það er ekki eftirsóknarvert að endurreisa bankakerfið sem hrundi og það hefur varla nokkur maður á dagskrá sinni að endurreisa það í óbreyttri mynd, eða ég vona ekki.

Við hrun var áætlað að stærð kerfisins væri á að giska tíföld landsframleiðsla. Það er náttúrlega fáheyrð stærð á bankakerfi. Ljóst varð að ekki væri hægt að standa að baki slíku kerfi og því skynsamlegt að reyna það ekki. Það eru margir sem horfa til Íslands og benda á skynsemi þess að hafa ekki farið þá leið að reisa það í óbreyttri mynd, eins og sumar aðrar þjóðir hafa gert. Má í því sambandi til að mynda benda á reynslu Íra sem við fengum fréttir af síðast í morgun að hefðu lent í stórfelldum vandræðum með þá leið sem þeir ætluðu að fara.

Virðulegi forseti. Félagslega ábyrgir bankar í umhverfis- og samfélagslegu tilliti eru kannski það sem við eigum að horfa til. Í því sambandi má minna á að í fyrra fengu þrír bankar umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs, þ.e. sænskur, norskur og danskur banki. Þessir bankar hafa að leiðarljósi að efla sjálfbærni á sviði umhverfis- og félagsmála til lengri tíma litið. Þeir fjármagna þannig framtíðina, svo sem lífræna matvælaframleiðslu, endurnýjanlega orkugjafa, byggingar sem eru hannaðar á loftslagsvænan hátt, menningar- og menntunartilboð o.fl. Allt þetta gera bankarnir, þ.e. Ekobanken sænski, norski Cultura Bank og danski bankinn Merkur Andelskasse, með því að skila hluthöfum sínum arði. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Íslenskt samfélag þarf á svona hugsun að halda og ég held að við eigum að horfa til þess að (Forseti hringir.) bankakerfið þróist í þá átt þannig að það komi önnur hugsun inn en var hér ríkjandi fyrir hrun.