Endurreisn íslenska bankakerfisins

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 11:42:26 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

endurreisn íslenska bankakerfisins.

[11:42]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum endurreisn bankakerfisins. Það hrundi vegna ákveðinna vinnubragða, vegna eftirlitsleysis og vegna þess lagaumhverfis sem Alþingi bjó því. Sá hugsunarháttur að peningar og græðgi væri upphaf og endir alls góðs réð ferðinni. Því miður er það svo að sama fólkið hefur að stórum hluta endurreist bankakerfið og lét það hrynja, sömu embættismenn, sömu bankamenn og að hluta sömu ráðherrar og þingmenn. Það er því ekki von á góðu.

Kröfuhafar Glitnis og Kaupþings virðast hafa ráðið ferðinni og ráða henni enn ásamt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hagsmunir viðskiptavina hafa mátt mæta afgangi, eins og skuldir heimilanna bera með sér.

Við búum við þá stöðu tveimur og hálfu ári eftir hrun að bankakerfið og fjármálakerfið er allt of stórt og allt of skuldsett og þar af leiðandi mjög brothætt, eins og t.d. ábyrgðir fjármálaráðherra til Íslandsbanka og Arion banka upp á 141 milljarð bera með sér. Það var ekki einu sinni gerð grein fyrir þeim ábyrgðum í fjárlögum eins og átti að gera.

Það er margt að í endurreisn bankakerfisins, of margt til að hægt sé að láta það ganga áfram þegjandi og hljóðalaust. Sú stefna ásamt algjörlega ógagnsæju eignarhaldi á Íslandsbanka og Arion banka sem og, að því er mér virðist, sömu hugmyndafræði og leiddi til hrunsins er ávísun á ótrúverðugleika. Slík stefna er klárlega ávísun á annað áfall og jafnvel annað hrun nema stórfelld niðurfærsla skulda eigi sér stað. Ég held að það sé tími til kominn að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra geri sér grein fyrir þessu og viðurkenni það og endurmeti stefnu ríkisstjórnarinnar í bankamálum.