Endurreisn íslenska bankakerfisins

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 11:44:46 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

endurreisn íslenska bankakerfisins.

[11:44]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka öllum þeim sem tóku þátt í þessari umræðu og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég vil þakka honum kærlega fyrir þann fund sem við áttum í viðskiptanefnd þar sem hann fór í gegnum sama mál, endurreisn bankakerfisins, og að mínu mati svaraði hann mjög heiðarlega þeim spurningum sem nefndarmenn báru upp. Ég held að hæstv. ráðherra geri sér grein fyrir því að mjög margt er óunnið í endurreisn bankakerfisins. Ég tel að hann geri sér grein fyrir því að það hefur verið unnið á síðustu árum án þess að hafa raunverulega áætlun um það hvers konar bankakerfi við ætlum að vera með í raun.

Hann nefndi nokkur atriði sem hann taldi mikilvægt að við ynnum að. Ég mundi vilja bæta aðeins við það, ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að sú nefnd sem Alþingi samþykkti að yrði sett á stofn á vegum efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, þar sem yrði einmitt unnið að því að svara spurningum um hvers konar bankakerfi við viljum hafa, verði sett af stað sem allra fyrst. Ég tel líka að við þyrftum hreinlega að setja lög um það að ráðherrar legðu fram áætlun hér á Alþingi um það hvers konar bankakerfi eigi að vera til staðar, að það sé skýr stefnumörkun frá framkvæmdarvaldinu um fjármálakerfið. Skýrsla er alls ekki nóg. Við höfum verið að vinna hér Alþingi jafnréttisáætlun, allar nefndir þingsins hafa tekið þátt í þeirri vinnu og ég verð að segja að ég tel að endurreisn bankakerfisins eigi alla vega að njóta sömu vinnubragða og virðingar og jafnréttisáætlun hér á Alþingi. Ég hvet ráðherrann til þess.

Markmiðið hlýtur að vera að við séum með bankakerfi, séum með banka sem munu aldrei aftur verða of stórir til að falla. En staðan er hins vegar ekki þannig í dag.