Athugasemdir forseta í utandagskrárumræðu

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 11:49:38 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

athugasemdir forseta í utandagskrárumræðu.

[11:49]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða hér fundarstjórn forseta. Við höfum þann háttinn á eins og önnur þjóðþing að við erum með forseta sem ber að sjá til þess að farið sé eftir þingsköpum og viðkomandi er þá ekki í neinum pólitískum störfum. Forseti er yfir það hafinn og forseti sér til þess að samræmi sé í þingstörfum.

Virðulegi forseti. Ég fullyrði að sú ræða sem ég hélt áðan er algjörlega í samræmi við það sem gengur og gerist hér dagsdaglega. Það var ekkert sagt úr þessum ræðustól sem (Gripið fram í.) hefði átt að fá virðulegan forseta til að bregðast við eins og hann gerði. Virðulegur forseti væri maður að meiri ef hann mundi leiðrétta þetta og biðjast afsökunar á því. Við erum ósammála um ýmislegt en við viljum ekki að virðulegt forsetaembætti Alþingis sé notað í pólitísku karpi.