Stjórn vatnamála

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 12:45:11 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[12:45]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka fram að ég styð það frumvarp sem hér er til 3. umr. um stjórn vatnalaga og tel, eins og ég sagði við 2. umr., miklu skipta að það verði að lögum. Frumvarpið hefur tekið allmiklum breytingum og miklum framförum í vinnu nefndarinnar sem hefur verið mjög mikil. Við höfum fengið allmarga gesti, mjög mikil og umfangsmikil bréf og tilskrifelsi vegna þessa máls, nú síðast frá sjávarútvegsráðuneytinu.

Ég hef áður, frú forseti, kynnt þann fyrirvara sem ég hef haft við framlagningu þessa máls, fyrst við 2. umr. og nú við 3. umr. Ég skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara, þeim sama og við 2. umr., en þá óskaði ég þingheimi og þjóð þess að fyrir 3. umr., sem nú er rétt að hefjast og mun standa fram eftir degi, kæmi fram annað hljómfegurra, ljósara og auðskiljanlegra orð yfir vatnsheild eða þá einingu gerða úr vatni sem er allt það vatn sem til að mynda er í einum læk, sem er í einni á, einu stöðuvatni, einum jökli eða þá grunnvatni á tilteknu svæði, hvort heldur það er heitt eða kalt. Ég var sem sé að auglýsa eftir öðru orði en orðinu „vatnshloti“.

Nokkuð hefur verið um það rætt að málfar í skjölum og lögum skuli vera vandað, einfalt og skýrt. Ég vil fyrir mitt leyti stuðla að því að svo sé. Það skiptir miklu þegar við setjum nýjan lagaramma, nýja hugsun og nýtt skipulag sem snertir umsýslu alls þess sem lýtur að vatni á Íslandi að menn skilji án þess að þurfa að fletta upp í orðabókum, hvað þá íðorðasafni tiltekinna verkfræðistétta, hvað um er að ræða og jafnvel að menn þurfi að vísa til erlendra tungumála áður en ljóst verður hvað um er rætt.

Þegar þetta skrýtilega orð „vatnshlot“ er notað í almennu máli eykst skilningurinn ekki, langt í frá. Ég vil nefna hér því til sanninda breytingartillögu frá umhverfisnefnd sem er að finna við 11. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Flokka skal vatn í vatnshlot og gerðir vatnshlota og meta þau.

Mat á yfirborðsvatnshloti skal byggjast á fyrirliggjandi gögnum hverju sinni og taka fyrir hverja vatnshlotsgerð …“

Þarna er ekki aðeins verið að taka upp þetta nýyrði „vatnshlot“ heldur er því bætt aftan við auðskilin íslensk orð, samanber „yfirborðsvatnshlot“. Er ekki yfirborðsvatn skiljanlegt, vatn á yfirborði? Þarf eitthvað að „hlotast“ til um það? Mér finnst það ekki vera og þess vegna skoraði ég á þingheim og reyndar alla sem á mál mitt hlýddu að reyna að finna annað og betra orð yfir þær vatnseiningar sem um ræðir og ég hef talið upp áður, það er sem sagt kannski bara einn lækur, ein á, eitt stöðuvatn, heitur eða kaldur grunnvatnsgeymir, jökull og annað þess háttar.

Ég get alveg tekið undir að orðið vatnshlot er sýnu skárra en að kalla þetta „boddí“ eða „kropp“ eða „líkama“ en það eru þau orð sem vísað er til á erlendum málum, sem sagt að vatnshlot sé þýðing á því sem á dönsku er nefnt „legeme“, líkami, á ensku „body“, boddí upp á íslensku sem við eigum í ýmsum orðasamböndum, svo sem boddí á bíl, og á þýsku nafnorðið „Körper“ sem við höfum kallað „kropp“. Vatnshlot er miklu betra en þetta. En við þurfum ekkert á þessu vatnshloti að halda að mínu viti og máltilfinningu minni er hálfmisboðið, frú forseti, með því að þetta orð sé sett þarna inn.

Orðið vatnshlot kemur 63 sinnum fyrir í þessum texta. Ég þori að fullyrða sem ég stend hér að í helmingi þeirra skipta mætti taka hlotið út og tala bara um það vatn sem við er átt hverju sinni en í hinum helmingnum, og þó að það væri eitthvað meira, er nauðsynlegt að mínu viti að taka þetta orð út og setja annað og betra í staðinn. Ég kallaði eftir því, eins og hér hefur komið fram, við 2. umr. að leitað yrði að nýju orði og ég verð að segja að ég hef fundið það orð og þurfti ekki lengi að leita. Þegar ég kallaði eftir nýju orði var það auðvitað óþarfi því að ástkæra ylhýra málið á ýmis gömul og góð orð sem nýtast vel, eru auðskilin og hægt að beita hér. Þar á ég við orðið „vatnsheild“ sem er sem sagt ekki nýtt heldur gamalt og gott. Það er betra en „hlotið“ að mínu viti. Það er miklu skýrara, það er augljósara, hljómfegurra og það er ekki síst tilgerðarminna en þetta hlot sem ekki nokkur maður getur skilið ef hann hefur ekki setið tíu fundi í hv. umhverfisnefnd Alþingis og hlustað á það hlot ræða nauðsyn þess að koma þessu orði á blað.

Þess vegna hef ég lagt fram breytingartillögur við þetta frumvarp við 3. umr. og legg til að í stað þess að 63 sinnum sé tönnlast á „vatnshloti“ verði tekið upp hið fallega, skýra og góða íslenska orð vatnsheild. Ég á von á því að þingheimur, sem nýlega hefur sýnt góðan smekk í málfari að eigin mati, muni styðja við þessa ágætu tillögu mína og greiða henni atkvæði sitt.