Stjórn vatnamála

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 12:54:09 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[12:54]
Horfa

Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er auðvitað lofsvert þegar þingmenn hefjast upp í baráttu fyrir betra íslensku máli. Það orð sem hv. þingmaður ræðir um er ekki nýtt, það er 25–30 ára gamalt í málinu, var auðvitað nýyrði á sínum tíma en skapað sem íðorð, eins og það heitir, innan ákveðinnar þekkingar- og fræðigreinar. Það voru ekki minni menn en Einar B. Pálsson verkfræðingur og Halldór Halldórsson sem bjuggu þetta til, líklega í orðanefnd byggingarverkfræðinga, og komu því þar á flot.

Ég er hvorki höfundur né sérstakur áróðursmaður um þetta orð. Það kemur frá Svandísi Svavarsdóttur, hæstv. umhverfisráðherra, inn í frumvarpið og hefur verið þar síðan. Nefndin hefur hlustað á hv. þingmann ræða þetta en komist að þeirri niðurstöðu, að ég held allir nema þingmaðurinn, að rétt sé að halda þessu íðorði inni, hver sem fegurð þess er, því að það sé nákvæmt að skilgreiningu og hefur þessa sögu á bak við sig. Lög eru ekki bókmenntatexti en þau þurfa að vera vönduð og skýr og einföld að málfari og til þess hefur einmitt verið sett af stað það íðorðastarf sem hér hefur verið stundað í marga tugi ára að sérfræðileg efni sé hægt að orða á íslensku og síðan taka þau upp í lög ef verkast vill.

Við höfum náð töluverðum árangri með þetta frumvarp, sem var ekki til fyrirmyndar í málfarsefnum, auðvitað flókið og erfitt, og við erum miklu nær því en áður að þetta frumvarp sé á vönduðu, skýru og einföldu máli. Ég held að tillaga hv. þingmanns bæti hér litlu við.