Stjórn vatnamála

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 13:00:32 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[13:00]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú er loksins farið að ræða um alvörumál á þinginu og tek ég glöð þátt í því. Í greinargerð minni með breytingartillögunni gætir, já, nokkurrar ónákvæmni og ég skal verða fyrst til þess að viðurkenna að ég átti ekki við það að orðið „vatnsheild“ væri mikið notað og gamalt heldur orðið „heild“ sem ég legg til að verði notað í samsetningu með orðinu vatn í staðinn fyrir orðtiktúruna hlot.

Kannski ættum við að kalla dropasafnið sem Jón Dan rithöfundur talaði um dropahlot eða hlot dropa. Það væri líklega það sem þetta mundi leiða til, en ég tel óþarft að reikna með því. Ég á von á því að þingheimur muni styðja þetta mál mitt og að þessu orði, hloti, verði ekki komið inn í lagatexta á Alþingi Íslendinga.

Ég mun nota seinni ræður mínar hér í dag til að fara yfir það sem hv. þingmaður og formaður umhverfisnefndar kom hér að, að það hefur verið farið í allmiklar málfarsbreytingar á þessu frumvarpi og vænti ég þess að við getum kannski komið sameiginlega með nokkrar tillögur enn til bóta á því. Ég nefni þar forganginn og forgangsefnin, en nú er tími minn búinn og ég hyggst þá taka það fyrir hér síðar í dag.