Fjármálafyrirtæki

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 13:43:47 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

fjármálafyrirtæki.

659. mál
[13:43]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að fara sérstaklega efnislega í málið sjálft, ég geri ráð fyrir að við fáum tækifæri til þess í viðskiptanefnd. Það sem ég ætlaði hins vegar að koma á framfæri er að þetta er ekki í fyrsta skipti sem við fáum hér inn með hraði mál af hálfu skilanefnda hinna föllnu banka. Ég tel mjög mikilvægt að reynt sé að breyta að einhverju leyti vinnubrögðum varðandi niðurstöður sem eru að falla hjá erlendum dómstólum, að Alþingi fær í rauninni mjög lítinn tíma til að fara yfir niðurstöður þeirra dóma. Ég held nefnilega að það sé orðið mjög nauðsynlegt að fara aftur heildstætt yfir þær breytingar sem hafa verið gerðar á fjármálafyrirtækjum hvað varðar fjárhagslega endurskipulagningu og slit.

Það er mjög mikilvægt að viðskiptanefnd fái gott ráðrúm til að fara yfir þessa lagabreytingu og jafnvel aðrar lagabreytingar sem hafa verið ræddar varðandi fjárhagslega endurskipulagningu og slit fjármálafyrirtækja. Við höfum allt of oft séð hversu slæmt það er þegar við þingmenn flýtum okkur við lagasetningu, fáum ekki svigrúm til að kalla eftir umsögnum um mál og höfum jafnvel í einhverjum tilvikum afgreitt þau samdægurs. Mér skilst hins vegar að svo eigi ekki að vera með þetta mál. Ég tel samt mjög mikilvægt að við meðferð málsins í viðskiptanefnd verði skoðað hvort það séu hugsanlega fleiri breytingar sem við ættum að gera í tengslum við það fyrst verið er að opna lögin og eins að við fáum tækifæri til að kalla eftir ekki bara gestum fyrir nefndina heldur skriflegum umsögnum um þær breytingar.