Stjórn vatnamála

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 13:50:51 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[13:50]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns geta þess að líkt og aðrir nefndarmenn í hv. umhverfisnefnd skrifa ég undir framhaldsnefndarálit það sem hefur komið fram og vil meina að sú meginbreyting sem þarna hefur orðið, þ.e. breytingin á 10. gr. frumvarpsins, sé kannski það sem mestu máli skiptir. Ef ég fer yfir greinarnar eins og hafði verið fyrirhugað að þær stæðu þá var í frumgerð frumvarpsins gert ráð fyrir að 10. gr. væri skipt upp í fjóra stafliði, a-, b-, c- og d-lið. En í þeirri útgáfu sem nú eru gerðar tillögur um, í 3. tölulið breytingartillagna frá umhverfisnefnd, verður fyrirsögn greinarinnar Samstarf rannsóknarstofnana, en hún orðast svo, með leyfi forseta:

„Veðurstofa Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Veiðimálastofnun og Hafrannsóknastofnunin leggja fram gögn og sérfræðiþekkingu við framkvæmd laga þessara. Um nánari tilhögun þessa samstarfs fer eftir samningum sem Umhverfisstofnun annast við framantaldar stofnanir samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur. Umhverfisstofnun semur við Veðurstofu Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Veiðimálastofnun og Hafrannsóknastofnunina um einstök verk við framkvæmd laga þessara, og getur jafnframt samið við aðra um að vinna slík verk. Ráðherra setur nánari reglur um slíka samninga í reglugerð.“

Þetta er að mörgu leyti hlutlausara orðalag en var í fyrri útgáfunni þar sem var að sumu leyti tiltekið mun nánar með hvaða hætti þessi hlutverk ættu að vera og fannst mörgum að það stangaðist á við aðrar lagagreinar og sérstaklega á við lög um Náttúrufræðistofnun, Veiðimálastofnun, Veðurstofu og Hafrannsóknastofnun, eins og getið er um í framhaldsnefndarálitinu.

Það hefur líka komið upp í sambandi við þessa grein, sem kemur síðan fram í 2. mgr. 3. töluliðar breytingartillögunnar, að Umhverfisstofnun geti síðan samið við aðra aðila um að vinna slík verk. Það kom meðal annars fram í umræðum í nefndinni að nú þegar eru í gangi slíkir samningar, þ.e. það er þegar í gangi vinna, eins og til að mynda hjá Náttúrufræðistofu Kópavogs, þar sem að sumu leyti er unnið að sambærilegri vinnu og þarna er unnin. Það má til að mynda nefna að Náttúrufræðistofa Kópavogs hefur verið frumkvöðull á sviði rannsókna á lífríki Þingvallavatns. Þess vegna held ég að þessi breyting sé ágæt, hún gefur ráðherra og Umhverfisstofnun ákveðið svigrúm til að vinna að þessum málum áfram. Í framhaldinu er þá hægt, ef menn ná um það góðu samkomulagi, að bæta því inn í lagatextann eða láta reglugerðarákvæði duga.

Það er einnig önnur ástæða fyrir því að ég er kominn hingað í ræðustól, herra forseti. Frá því að framhaldsnefndarálit hv. umhverfisnefndar kom fram hefur komið fram breytingartillaga á orðalagi sem notað er í frumvarpinu. Þessi tillaga og þessi hugmynd að orðalagi hafði ekki komið fram, alla vega ekki með áþreifanlegum hætti, í nefndinni en hins vegar gerði hv. þm. Álfheiður Ingadóttir fyrirvara, eins og kunnugt er, vegna þess að henni og nokkrum öðrum hv. þingmönnum þótti orðið „hlot“ ekki sérlega heppilegt, hvorki hvað varðaði skilning né gagnsæi að öðru leyti. Því má segja að leit hafi hafist að öðru orði en þessu inn í lagatextann.

Orðið „heild“ er ágætlega skiljanlegt hugtak, ég held að flestir hafi ágætan skilning á því að heild sé eitthvað sem hangir saman, eitthvað sem nær utan um eitthvað, og sé að því leyti til skiljanlegra en „hlot“ sem þó, eftir því sem mér skilst, hefur einhverja tengingu við orðið „hlutur“, sem aftur væri með einhverjum vilja hægt að þýða til baka yfir í ensku yfir í einhvers konar mynd af orðinu „body“. Engu að síður erum við þar komin í hálfgerða hringavitleysu. Þó að þau okkar sem erum þokkalega mælt á enska tungu skiljum hugtök eins og enska orðasambandið „body of water“ ágætlega, þá held ég að jafnvel þau okkar sem erum hvað best mælt á íslenska tungu grípum ekki í einni hendingu hugtak eins og vatnshlot, að þar hljóti að vera um að ræða sambærilegt hugtak og „body of water“.

Ég held því að þessi tillaga hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, um að nota frekar orðið heild, sé ágæt. Það komu að sumu leyti í hálfkæringi upp í nefndinni, alla vega frá undirrituðum, ýmsar aðrar hugmyndir um þýðingu á enska orðinu „body“ sem ég ætla svo sem ekki að fara að tíunda hér, en ég held að þessi þýðing sé ljómandi góð. Að minnsta kosti eru verulegar líkur á að þeir sem lesa lögin þegar fram í sækir, eða þurfa að leita sér stuðnings í lögunum, skilji hvað við er átt. Ég held að flestir muni til að mynda átta sig á því að vatnsheildin Vatnajökull sé þá allt það vatn sem er á jöklinum og innan hans marka, en ég held á sama hátt að afar fáir hefðu skilið þetta með hlotið, hvað þá Þingvallavatnshlot o.s.frv., svo að við tökum enn stærri ambögu okkur í munn.

Ég hefði svo sem viljað að fram hefði komið enn betri hugmynd að þessu orðasambandi og er þó ekki að kasta rýrð á ágæta vinnu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur með nokkru móti þegar ég segi það. En ég held, herra forseti, að vatnsheild sé hugtak sem við getum unað við, sem við munum væntanlega skilja. Við getum líka væntanlega treyst þeim sem í framtíðinni þurfa með þessi lög að véla, eða njóta af þeim stuðnings, til að nota það og nýta sér, og það er vel.