Stjórn vatnamála

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 14:02:07 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[14:02]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er ekki ofsagt með þá blessuðu stofnanamállýsku sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kom inn á, stundum hefur maður á tilfinningunni að nánast sé verið að reyna að gera lagatexta að einhvers konar öðru tungumáli en því sem við tölum daglega og það er náttúrlega ekki gott. Mér hefur alltaf þótt að lög eigi að vera þannig að þeir sem lesa þau skilji um hvað þau fjalla.

Þetta sem hv. þingmaður nefnir með forgangsefnin er dálítið sérstakt. Ég hef hingað til lagt sama skilning í forgang og hv. þingmaður. Það sem hefur forgang á væntanlega að vera í fyrirrúmi, koma fyrst, vera mikilvægast. En eins og útskýrt hefur verið fyrir hv. umhverfisnefnd eru forgangsefni þau efni sem við viljum síst, þ.e. það eru þau efni sem við viljum helst losna við og forgangur þeirra felst í því að þau eigi að hafa forgang um að koma sér í burtu, ef ég hef skilið þetta rétt, og það er náttúrlega ekki gott.

Ég lagði til að hið ágæta íslenska orð „óþverri“ yrði notað yfir þessi efni fremur en forgangsefni. Það er öllum mönnum þokkalega ljóst hvað felst í orðinu „óþverri“ þó að sjálfsagt geta menn lagt missterkan skilning í það hugtak. En það er eins og hv. þingmaður segir, stundum er maður ekki viss um að það sé markmið laganna að skiljast, heldur að vera lög í sjálfu sér.