Stjórn vatnamála

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 14:21:46 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[14:21]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Fyrst um verkefni stofnananna, Veiðimálastofnunar, Veðurstofunnar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Hafrannsóknastofnunar, að baki þessu liggur náttúrlega bara einföld staðreynd. Þessar stofnanir eru allar að reyna að tryggja sér fjármuni til verkefna. Eins og fram kom í umræðu í nefndinni um þetta mál var sú tillaga sem lá fyrir við 2. umr. þessa máls ekki í samræmi við þá tilskipun sem frumvarpið byggði á. Að mati Umhverfisstofnunar laut sú tillaga sem lá fyrir í 10. gr. að því að flækja málið og auka kostnað en ég held að umhverfisnefnd hafi verið samdóma um að uppstillingin eins og hún lá þá fyrir hafi gefið færi á því að ákvæðið eins og það var mundi nýtast þessum stofnunum til að knýja á um frekari fjárveitingar. Það er nokkuð sem ekki er á okkar verksviði og við bentum á að nær væri að endurskoða þau lög sem um viðkomandi stofnanir gilda.

Ég verð hins vegar að hryggja hv. þm. Álfheiði Ingadóttur með því að ég er ekki sammála þeirri tillögu sem hún flytur hér um hreinsun á orðinu „vatnshlot“ . Ég er þeirrar skoðunar að þarna sé um sérhæft fræðiheiti að ræða sem búið er að nýta í 20–30 ár í þessum fræðaheimi sem sýslar með þessi mál.

Til að draga úr sárindum hv. þingmanns með þá afstöðu mína sem í þessum orðum liggur get ég þó fullvissað hv. þingmann um að ég mun aldrei kalla Þingvallavatn vatnshlot, aldrei nokkurn tímann. [Hlátur í þingsal.]