Aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 14:36:51 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum.

[14:36]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þær óskir sem fram hafa komið frá hv. þingmönnum um að ríkisstjórnin verði kölluð til þings til að gera grein fyrir stöðu mála um kjarasamninga og það sem fram undan er, ekki síst í ljósi þess að þingið er að fara í hlé. Það verða nefndadagar hér í næstu viku og ekki þingfundur fyrirhugaður fyrr en á fimmtudaginn. Þetta eru atriði sem eiga erindi við þingið og þingmenn þótt auðvitað læðist að manni sá grunur að í þessum viðræðum sé ríkisstjórnin ekki að gera neitt annað en að dusta rykið af gömlum loforðum sem þegar hafa verið svikin, en a.m.k. er rétt að þingið hafi eitthvað um það að segja hvað er að gerast.

Ég tek síðan líka undir það, herra forseti, að það er auðvitað enginn bragur á því að hæstv. ráðherrar rjúki úr húsi og forðist utandagskrárumræður til þess að halda ríkisstjórnarfundi. Með því er þinginu ýtt til hliðar fyrir fundarhöld framkvæmdarvaldsins á þingtíma. Það gengur ekki.