Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 15:04:32 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[15:04]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi sannfæringu fyrir því að það tryggingakerfi sem lagt er til að stofnsett verði með þessu frumvarpi til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta gangi upp. Þegar ég les frumvarpið og fer yfir það fæ ég ekki séð að þetta frumvarp og það tryggingakerfi sem það mælir fyrir um veiti innstæðueigendum þá vernd sem að er stefnt, m.a. í 1. gr. frumvarpsins. Þar segir:

„Markmið laga þessara er að veita eigendum innstæðna í innlánsstofnunum og viðskiptavinum fyrirtækja í verðbréfaþjónustu vernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis.“

Með öðrum orðum á þessi nýi tryggingarsjóður innstæðueigenda að tryggja það að fari banki eða fjármálastofnun á hausinn þurfi þeir sem eiga inneignir á bankabókum eða sparireikningum ekkert að óttast vegna þess að tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta muni þá greiða út þær innstæður sem viðkomandi á í banka.

Nú liggur hins vegar fyrir skýrsla frá Talnakönnun sem bendir til þess að ef einn viðskiptabanki fer á hausinn — og við þekkjum nú dæmi þess að íslenskir viðskiptabankar hafa farið á hausinn — taki það 92 eða 93 ár að safna upp í þann sjóð sem ætlað er að tryggja þá vernd sem mælt er fyrir um í 1. gr. frumvarpsins. Ég verð að fá útskýringar á því frá hv. þingmanni hvort hann hafi sannfæringu fyrir því að með þessu frumvarpi nái menn þeim markmiðum sem að er stefnt.