Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 15:10:03 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[15:10]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir vænt um vinstri menn en ég hef ekki talið mig vinstri mann. Ég hef talið mig sósíaldemókrata, miðjumann á litrófi íslenskrar pólitíkur. (GÞÞ: … sósíaldemókrata …) Ég hef álitið mig miðjumann og frekar hægri krata ef eitthvað er, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson. Ég þakka hins vegar ábendinguna.

Ég ítreka að ég skil hv. þingmann ekki þannig að hann líti á það sem valkost að ríkið hlaupi ekki undir bagga ef einn af bönkunum þremur fellur. Er það sjónarmið Sjálfstæðisflokksins í málinu, að ef einn þriggja banka félli kæmi ríkið honum ekki til bjargar? Hann getur komið inn á það í ræðu sinni. En hvað telur hv. þingmaður að gera beri? Hvaða lausn hefur Sjálfstæðisflokkurinn á því vandamáli sem við stöndum frammi fyrir ef þingmenn hans eru ekki áhugasamir um að stofna hér nýjan innstæðutryggingarsjóð til að vernda hagsmuni almennra sparifjáreigenda í landinu?