Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 15:22:17 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[15:22]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svörin og vonast til að heyra hann fara aðeins betur í gegnum annað það sem fram kom í spurningum mínum í seinni ræðu sinni sem hann segist munu flytja á eftir. Ég ítreka að ég vildi gjarnan vilja heyra skoðun hans varðandi þá hugmynd sem ég nefndi, að takmarka gengisáhættuna og horfa til kanadísku leiðarinnar.

Ég vil líka benda á að ég kynnti mér nýlega fyrirlestur sem Andrew Haldane, sem er yfirmaður fjármálastöðugleika hjá Bank of England, þar sem hann benti á að stóru bankarnir væru að mörgu leyti veikari fyrir vegna þess að þeir væru með mun hærra skuldahlutfall en minni bankar og virtust eiga auðveldara með að taka lán og væru þar með jafnframt áhættusæknari. Ég hef líka bent á að ég tel að það sé vel mögulegt að tryggja með aðgerðum stjórnvalda að það sé hagkvæmt að vera með fleiri og minni banka en nú eru á Íslandi (Forseti hringir.) og að við ættum svo sannarlega að horfa til Noregs sem ákveðinnar fyrirmyndar í því máli.