Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 15:27:34 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[15:27]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka virðulegum forseta fyrir viðbrögðin. Þessum óskum var hins vegar komið áleiðis til hæstv. ráðherra fyrir mörgum klukkustundum síðan þannig að hann gæti gert ráðstafanir til að vera hér. Án þess að ég viti innihald ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar frá orði til orðs held ég að það væri mjög æskilegt að hæstv. ráðherra mundi hlýða á orð hans því að eins og kom fram í umræðunni þegar hv. þm. Magnús Orri Schram skiptist á skoðunum við hv. þingmann tengist málið beint framkvæmdarvaldinu. Það er því mjög erfitt að fara yfir það og fá niðurstöðu í það án þess að hæstv. ráðherra sé viðstaddur. Ég tek það fram að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum ekki oft kallað til ráðherra. Við gerum það ekki nema brýn nauðsyn sé til þess. Það er svo sannarlega í þessu tilviki eins og allir hafa áttað sig á sem hlustað hafa á þær umræður sem farið hafa fram hér á síðustu mínútum.

Virðulegi (Forseti hringir.) forseti. Ég held að væri vel við hæfi að hinkra aðeins eftir hæstv. ráðherra.