Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 15:58:20 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[15:58]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að hv. viðskiptanefnd hefur ráðist í ýmsar breytingar til að tjasla upp á þetta stórgallaða frumvarp. Það þýðir hins vegar ekki að það sé orðið fullkomið, síður en svo. Sú grundvallarhugsun sem fram kemur í frumvarpinu gengur ekki upp. Ég hef óskað eftir því að hv. þingmaður útskýri fyrir mér hvernig hann sér fyrir sér að þetta tryggingakerfi eigi að ganga upp gagnvart t.d. viðskiptavinum eins af stóru viðskiptabönkunum. Ég hef ekki fengið nein svör við því frá hv. þingmanni nema hann telji það ásættanlega vernd að það taki 95 eða 96 ár að safna í þennan tryggingarsjóð til að standa undir þeirri vernd sem að er stefnt. Það tel ég ekki ásættanlega vernd og það er kjarni þessa máls. Í því ljósi segi ég að málið og sú hugsun sem það byggir á gangi ekki upp.

Ég er ekki talsmaður þess að það sé ríkisábyrgð á öllum innstæðum í landinu og hef aldrei verið. Það er alveg rétt sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur sagt, yfirlýsing ríkisstjórnar þar um hefur ekkert lagalegt gildi. Ég veit ekki hvernig menn ætluðu að byggja á slíkri yfirlýsingu fyrir dómi ef á hana reyndi.

Ég tel mikilvægt að íslensk stjórnvöld taki sig saman í andlitinu, gangi á fund viðsemjenda sinna vilji menn koma upp einhverju sameiginlegu evrópsku tryggingakerfi til að efla traust á evrópska bankakerfinu og gangi til samninga um það að það verði sameiginlegt. Að minnsta kosti gengur ekki að íslensk stjórnvöld leiði í lög þetta frumvarp vegna þess að það veitir ekki þá vernd sem að er stefnt, því miður.