Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 16:09:19 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:09]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka viðskiptanefnd fyrir góða vinnu í þessu máli. Ég vildi sérstaklega víkja að nokkrum atriðum sem fram hafa komið í umræðunni.

Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að koma á heilbrigðu innstæðutryggingakerfi. Við búum við óeðlilegt ástand þar sem ekki er í reynd í gildi trúverðugt kerfi þar sem fjármálastofnanir greiða í dag í hinn gjaldþrota tryggingarsjóð sem stendur til að bæta það tjón sem varð í efnahagshruninu, en það fer engin söfnun fram gagnvart skuldbindingum í nýju fjármálakerfi sem verið er að stofna til.

Innstæðutryggingakerfi eru mikilvægur þáttur í nútímalegu fjármálakerfi. Það er mjög mikilvægt að almenningur eigi möguleika á því að verjast ófyrirséðum áföllum og með Innstæðutryggingakerfum sé hóflegur sparnaður venjulegs fólks varinn við slíkar aðstæður. Innstæðutryggingakerfin hafa verið til endurmats og eru enn í kjölfar hrunsins. Nú er gert ráð fyrir því að innleidd verði sú regla sem er að finna í nýrri tilskipun um að hámarks- og lágmarksfjárhæð sem tryggð er sé fastsett 100 þús. evrur í stað þeirrar lágmarksfjárhæðar sem tilgreind er í gildandi lögum og eldri tilskipun.

Hér hefur verið farið nokkrum orðum um þetta mál sem ég mundi vilja koma inn á og útskýra nokkuð betur. Er þar fyrst fyrir að fara að ríkisábyrgð sé á þeim tryggingarsjóði sem settur verður á fót með þessu frumvarpi. Svo er ekki, enda er skýrt tekið fram að svo sé ekki í lögunum. Það er ekki rétt þýðing eða skilningur á orðalagi tilskipunarinnar að aðildarríkin beri ábyrgð á innstæðum í tryggingarsjóðnum heldur ber þeim að tryggja að komið sé á fót innstæðutryggingakerfi.

Í því kerfi sem lagt er upp með er reynt að laga þekjuna sem á að myndast í því kerfi, tryggingarþekjuna, að því sem innlendar markaðsþarfir krefjast, en líka að gera ráð fyrir raunhæfum uppbyggingartíma á sjóðnum. Við höfum gengið út frá því að lágmarksstærð fyrir sjóðinn sé 60–70 milljarðar og er þá gengið út frá því að hann geti náð að standa undir því að tryggja að fullu og öllu 10% og rúmlega það, um 15% af heildarmagni tryggðra innstæðna. Innstæður í landinu eru í kringum 1.500 milljarða í dag, en ákvæði frumvarpsins og sú þrenging sem þar er á mengi hinna tryggðu innstæðna hefur í för með sér að þær eru samkvæmt frumvarpinu þriðjungur þess eða um 500 milljarðar.

Hér hefur verið talað um að það þyrfti að safna í sjóðinn í 100 ár til þess að hann yrði raunhæf trygging en tryggingarsjóðir eru aldrei hugsaðir til að bæta ófyrirséð fjármálaáföll þar sem allir bankar fara á hausinn. (Gripið fram í: Nei, nei.) Við slíkar aðstæður þarf aðkomu ríkisvaldsins. Þá má spyrja: Hvað með einn af þremur stóru bönkunum á Íslandi? Við höfum litið svo á að bankarnir þrír eins og staðan er í dag séu það mikilvægir að aðkomu ríkisins þurfi með einhverjum hætti ef þeir lenda í verulegum vanda. Sú trygging sem gert er ráð fyrir að verði að lágmarki 60–70 milljarðar fer langleiðina með að standa undir innstæðutryggingum ef einn slíkur banki færi. Menn gleyma því oft að hér er gert ráð fyrir að hið almenna viðmið gildi við gjaldþrot fjármálafyrirtækja og að jafnaði helmingur náist upp í kröfur. Það er hin sögulega reynsla. Hún er náttúrlega ekki algild. Það eru dæmi um stofnanir sem hafa verið leiknar svo illa að það er langt frá því að þær nái því, eins og Sparisjóður Keflavíkur. En almennt séð í heimssögulegu tilliti er reynslan sú að um helmingur náist upp í kröfur.

Hlutfall innstæðutryggingarsjóðsins tryggir tímanlega greiðslu á öllum tryggðum innstæðum og á eftir atvikum endurkröfu í viðkomandi þrotabú. Ef gert er ráð fyrir að einn af þremur stóru bönkunum fari í þrot mun fullfjármagnaður sjóður fara langleiðina með að standa undir því.

Virðulegi forseti. Það er spurt hvort nokkrar nauðir reki okkur til að hefja þessa vegferð í ljósi þess að ekki sé búið að samþykkja þessa tilskipun með bindandi hætti fyrir hið Evrópska efnahagssvæði. Staðreyndin er sú að ef menn setja það fyrir sig að það taki langan tíma að hefja söfnun í sjóðinn er eins gott að koma sér af stað því að við erum búin að ræða þetta mál frá hausti 2009 og á meðan hefur engin söfnun í nýjan sjóð farið fram. Það er mjög mikilvægt því að þegar við horfum á endurreisn fjármálakerfisins er ein af forsendunum fyrir því að geta aflétt höftum að fullu sú að við getum ætlað fjármálakerfinu að standa á eigin fótum í samkeppnishæfu umhverfi. Ein af grunnforsendunum fyrir þessu öllu saman er að trúverðugu innstæðutryggingakerfi sé komið á fót. Það er orðið mjög mikilvægt að koma þessu kerfi á til þess að greiða fyrir því að við getum látið endurreist fjármálakerfi, eins og ég sagði, standa á eigin fótum og gert því kleift að sækja sér fjármögnun erlendis og þola afnám gjaldeyrishafta.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en ítreka þakkir til nefndarinnar fyrir góða vinnu. Við lögðum mikið upp úr því í ráðuneytinu að ná samstillingu við Fjármálaeftirlit, Seðlabanka og fjármálafyrirtæki um umgjörðina um þetta mál. Það hefur tekist ágætlega. Um málið er mikil sátt meðal þessara aðila. Ég held að það skipti miklu máli fyrir okkur að koma þessu á rekspöl og hefja söfnun í nýjan innstæðutryggingarsjóð til að standa að baki heilbrigðu fjármálakerfi til lengri tíma.