Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 16:20:41 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:20]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að hér er miðað við 100 þús. evru trygginguna er sú að við vitum að sú tilskipun er í vændum og það er ekki rétt að hún sé með einhverjum efnislegum hætti öðruvísi hvað varðar ríkisábyrgð á innstæðutryggingarsjóð.

Varðandi það sem hv. þingmaður spyr síðan um, tryggingaverndina og samhengi við önnur lönd, þá er það alveg rétt að ágallar eru á innstæðutryggingakerfinu út frá því að aðstaða minni ríkja er lakari gagnvart því. Það er þáttur í því sem almennt er nú fjallað um sem „crossborder banking“-vandamál í kjölfar fjármálakreppunnar og er auðvitað atriði sem ég hef rætt við kollega á erlendum vettvangi, og er til viðvarandi umræðu á vettvangi Evrópusambandsins, hvernig innstæðutryggingakerfið verði lagað að breyttum veruleika og hver framtíðin fyrir bankakerfi sem vinnur þvert á landamæri er í kjölfar fjármálahrunsins. Þau mál eru öll í mikilli deiglu.

Ég er ekki viss um að rétt sé að fylgja hv. þingmanni í einhverja skógarferð til Noregs eða annarra Norðurlanda til að búa til eitthvert sameiginlegt innstæðutryggingakerfi með þeim. Norðmenn tryggja nú 250 þús. evrur og ég átta mig ekki á skynseminni í þeim málflutningi hv. þingmanns að fara með innstæðuverndina svo hátt. Ég tel eðlilegast að við setjum á fót tryggingakerfi sem virkar fullkomlega, ef menn bara hlusta á þau rök sem hér eru færð fram, sem er ætlað til að tryggja tímanlega greiðslu við gjaldþrot. En eftir stendur auðvitað það að ef einn eða fleiri af þeim bönkum sem (Forseti hringir.) hafa gegnt mjög þjóðhagslega mikilvægu hlutverki lenda í vandræðum reynir auðvitað alltaf á aðkomu ríkisins með einum eða öðrum hætti.