Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 16:26:09 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:26]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta voru mjög góðar spurningar hjá hv. þingmanni sem verðskulda kannski lengra svar en ég hef ráðrúm til að veita. Í fyrsta lagi er spurt hvort þetta kerfi sé komið til að vera. Það er auðvitað margt sem verið er að kanna og hugsa á vettvangi fjölþjóðlegra stofnana þar sem menn horfa á bankastarfsemi eftir hrun, ekki bara á evrópskum vettvangi heldur þvert yfir landamæri. Ein af afleiðingum hrunsins er sú að bönkum hefur fækkað í minni ríkjum og þeir hafa verið teknir yfir af bönkum úr stærri ríkjum.

Eitt af því sem við höfum vakið máls á í evrópsku samhengi er að kannski séum við komin að endimörkum þess að bankar í minni ríkjum geti yfir höfuð stækkað eða verið í raunverulegri samkeppni við banka í stærri ríkjum. Ein hugmynd sem viðruð hefur verið er sú að einfaldlega verði búið til vegabréf. Það verði tvenns konar bankaleyfi, staðbundið bankaleyfi og svo bankaleyfi yfir landamæri sem byggi þá á fjölþjóðlegum grunni, bæði hvað varðar innstæðutryggingakerfi og lánveitanda til þrautavara. Gallinn við það er sá að þá erum við að draga úr samkeppni á fjármálamarkaði almennt á Evrópuvettvangi.

Varðandi þessa framtíðarsýn að öðru leyti þá er hún auðvitað í mótun og ákveðinni deiglu. Ég fæ vonandi ráðrúm til þess í seinna andsvari að ræða það betur.