Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 16:28:35 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:28]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur verið afstaða okkar að fullnægjandi sé að hafa kerfi með þessum hætti og það þurfi ekki að hafa A- og B-deildina hvora á sinni kennitölu. Það er sjálfsagt að nefndin meti það ef hún telur ástæðu til að ganga lengra í því og hlusta á það.

Endurtryggingakerfi eru alltaf erfiðleikum háð og ég held að menn verði líka alltaf að átta sig á takmörkum innstæðutryggingakerfa. Þau geta aldrei orðið svo stór, þó svo að þau verði fjölþjóðleg, að þau létti af allri áhættu af bankahruni þannig að menn geti tryggt sig fyrir áhættu af fjármálahruni. Það er ómögulegt. Það mun alltaf verða áhætta af fjármálahruni.

Til að svara spurningu sem hv. þingmaður spurði áðan þá er ég ekki sannfærður um að hægt sé að viðhalda forgangi innstæðna vegna þess að ég held að það geri bönkum ómögulegt að fjármagna sig þegar fram í sækir. Fjárfestar munu þá (Forseti hringir.) eiga erfitt með að lána bönkum upp á það að vera alltaf með eftirstæðar kröfur á eftir innstæðum. En þetta er auðvitað einn af þeim þáttum sem er (Forseti hringir.) til endurmats á alþjóðlegum vettvangi.