Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 16:32:20 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:32]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gefst kannski ekki alveg færi til að svara þessu, enda voru þetta ekki að öllu leyti fyrirspurnir heldur málflutningur. (Gripið fram í: Nei.)

Ég vil fyrst fræða hv. þingmann um það, vegna orða hans hér fyrr í dag, að ég hef sem sagt hunskast til Brussel eins og hann hafði efasemdir uppi um fyrr í dag að ég hefði gert. (Gripið fram í.) Þar hef ég talað fyrir því að sú staða sem uppi er fyrir smærri ríki varðandi starfsaðstæður fjármálafyrirtækja verði endurmetin, þar með talið varðandi innstæðutryggingakerfið. Ég er hins vegar ekkert sammála því eins og hv. þingmaður segir að þessi tilskipun gangi augljóslega gegn íslenskum hagsmunum og hann oftúlkar hér marga aðra hluti. Eins og við útfærum í þeim forsendum sem lagðar hafa verið fram í frumvarpinu er byggt upp trúverðugt kerfi. Það er hins vegar alveg rétt að aðstæður hér þola ekki að við séum að þenja þessa innstæðutryggingu eitthvað meira út, láta hana taka til annarra aðila en þeirra tryggðu innstæðna sem frumvarpið tekur til. Það er líka alveg ljóst að það er óskynsamlegt að bæta við skuldbindingum íslenskra banka í útibúum erlendis. Innstæðutryggingakerfin mundu ekki þola það auðveldlega þannig að það eru ákveðnar hömlur á því hvað menn geta leyft sér. Þetta kerfi er þó trúverðugt og mun veita þá vernd sem gert er ráð fyrir að sé nauðsynleg fyrir fjármálakerfið.