Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 16:34:17 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:34]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hvet menn til að hlusta á hvað hæstv. ráðherra segir. Hann svaraði ekki spurningu minni um af hverju orðalaginu hefði verið breytt, hann gerir það kannski á eftir. Hann svaraði sömuleiðis ekki spurningu minni um það hvort menn væru hættir við fyrningarleiðina. Hann staðfesti það að hann væri ekki að gæta hagsmuna Íslendinga í Brussel á þessum fundum, heldur frekar almennt að tala um að það ætti að endurmeta starfsaðstöðu íslenskra fjármálafyrirtækja. En hann segir hvað eftir annað að hér sé verið að koma á trúverðugu kerfi sem vaxi. Ég er hér með minnisblað frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu sem var dreift í fjárlaganefnd þar sem farið er yfir að þetta taki ekki á falli stærstu bankanna. Íslenska fjármálakerfið er bara stærstu bankarnir. Ætli það sé ekki komið upp í að 90% af innstæðunum séu þessir þrír íslensku bankar? Hér er talað skýrt um að ríkið þyrfti að koma inn í það. Það hefur hæstv. ráðherra sagt líka sjálfur. Það er augljóst (Forseti hringir.) að þetta kerfi nær ekki markmiðum sínum. Hæstv. ráðherra er m.a.s. búinn að segja það áður í umræðunni og sömuleiðis hv. þm. (Forseti hringir.) Magnús Orri Schram. Hér er minnisblað sem staðfestir það.