Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 16:35:33 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:35]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvað það tjóar að elta ólar við þennan málflutning. Það er búið að útskýra alveg nákvæmlega hvernig þetta kerfi virkar og það er búið að útskýra að kerfið getur aldrei orðið það stórt að það þoli fall allra stóru bankanna sem eru þjóðhagslega mikilvægir á einum og sama tíma. (GÞÞ: … bankar.) Eins og ég rakti áðan í ræðu minni mun kerfið fullfjármagnað fara langleiðina með það að tryggja jafnvel fulla efndafjármögnun á falli eins þriggja banka ef einungis (GÞÞ: Ekki samkvæmt minnisblaðinu þínu.) er gengið út frá því. Ef hv. þingmaður getur nú lagt saman einfaldar tölur eins og ég fór yfir í ræðu minni áðan er heildarfjárhæð tryggðra innstæðna um 500 milljarðar. Ef við gefum okkur að þær innstæður sem eru í höndum þriggja stærstu bankanna dreifist þokkalega jafnt hlýtur hann að geta reiknað það út með þokkalega einföldum hætti að fullfjármagnaður sjóður upp á (Forseti hringir.) 60–70 milljarða, þess vegna aðeins meira, ræður auðveldlega við að greiða að fullu og öllu helminginn (Forseti hringir.) af öllum innstæðum (GÞÞ: Ég les bara minnisblaðið frá þér.) í föllnum banka.