Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 17:03:44 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[17:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Ég held, frú forseti, að neyðarlögin hafi verið kraftaverk. Ég veit ekki hvort menn hafa hugleitt það hvað hefði gerst ef neyðarlögin hefðu ekki verið sett eða þau hefðu fallið. Þá hefðum við nefnilega setið uppi með það að hafa ekkert greiðslukerfi í landinu, enga gilda mynt af því að fólk gengur yfirleitt ekki með peninga á sér. Það hefði ekki geta farið í banka og tekið út af því að þeir hefðu verið lokaðir. Við slíkar aðstæður gæti fólk ekki notað VISA-kortin sín og kreditkortin. Það gæti ekki keypt í matinn nema afhenda úrið yfir borðið, eitthvað slíkt. Eftir nokkrar vikur hefði orðið hungursneyð, hugsa ég. Þetta er nefnilega ekkert grín þegar menn geta ekki borgað. Neyðarlögin voru því að mínu mati kraftaverk.

Þar voru innstæður settar inn í nýju bankana og eignir á móti. Fyrir kröfuhafana, merkilegt nokk, var þetta það skynsamlegasta. Ef þetta hefði ekki verið gert með allar innstæður hefði hugsanlega orðið áhlaup á bankana, þessa nýju banka, og menn reynt að taka út og traustið hefði farið algjörlega. Það hefði getað valdið því að þeir færu á hausinn aftur, nýju bankarnir, orðið verðlausir. Þetta er allt mjög viðkvæm staða.

Svo varðandi það að íslenskar innstæður hafi verið tryggðar, það er ekki rétt. Erlendar innstæður Icesave-reikninganna fengu 20 þúsund evrur greiddar frá Íslendingum. Sambærileg innstæða á Íslandi er ekki nema 15 þúsund evra virði. Íslenskir fjármagnseigendur töpuðu í evrum mælt vegna þess að krónan minnkaði mjög hratt á eftir og vextir stóðu alls ekki undir því, ekki einu sinni verðtryggðir vextir. Það er því ekki rétt að fjármagnseigendur hafi verið óhultir í þessum gerningum öllum, þeir töpuðu líka.