Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 17:21:43 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[17:21]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Það líður að lokum þessarar umræðu. Mig langar til að halda áfram og fjalla efnislega um nokkra þætti þessa máls og fara aðeins í gegnum þau álitaefni sem aðrir meðlimir viðskiptanefndar hafa reifað.

Fram kemur í áliti 2. minni hluta að fýsilegt sé að taka upp samstarf við aðra evrópska tryggingasjóði. Ég vil segja í því sambandi að það hefur að sjálfsögðu verið skoðað og margrætt á vettvangi nefndarinnar hvort það væri ekki fýsileg lausn. Ég sagði í ræðu minni áðan að Evrópusambandið sé nú að kanna hvort sú lausn sé til staðar og muni á næstu rúmum tveimur árum taka afstöðu til þess með hvaða hætti slíkur sjóður gæti orðið til.

Það samstarf er hins vegar ekki mögulegt í þeirri stöðu sem er í dag. Við búum ekki við þann valkost, Íslendingar, að geta leitað í samevrópskan tryggingarsjóð og þess vegna þurfum við að huga að því hvernig við getum leyst þessi vandamál sjálf.

Mér finnst hins vegar skorta mjög á það í málatilbúnaði þeirra sem eru hvað gagnrýnastir á þetta mál að þeir hafa í raun og veru engin svör við því hvernig gera beri hlutina. Ég spyr hv. þingmenn: Eru þeir að kalla eftir því að hér verði ríkisábyrgð? Eru menn að kalla eftir því að við komum okkur út úr ríkisábyrgðinni? Vilja menn sjá innlánstryggingakerfi eða vilja menn ekki sjá innlánstryggingakerfi hér? Með hvaða hætti ætla þeir að verja hagsmuni innlánstryggingaþega?

Þeir hafa ekki fært málefnaleg rök fyrir máli sínu og þess vegna tel ég skynsamlegt að halda áfram og gera þetta frumvarp að lögum eins og það lítur út eftir meðferð viðskiptanefndar.

Í áliti 2. minni hluta, hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur, segir t.d., með leyfi forseta:

„Nú er trú almennings hins vegar í lágmarki og því mun tómur eða félítill sjóður ekki virka sannfærandi, jafnvel þótt tryggingarfjárhæðin sé hækkuð upp í 100.000 evrur. Þá hafa bæði almenningur og bankamenn lært það af fenginni reynslu að í raun er ríkisábyrgð á innstæðum, því að þegar bankakerfið hrundi greiddi ríkið allar innstæður. Rökrétt er að gera ráð fyrir að komi til annars hruns muni ríkisvaldið bregðast eins við.“

Þá vil ég spyrja hv. þingmann: Hvað vill hún þá gera í raun og veru? Vill hún að ríkisvaldið bregðist við eða vill hún ekki að ríkisvaldið bregðist við? Vill hún ekki hafa ábyrgð á innstæðum eða vill hún hafa ábyrgð? Með hvaða hætti þá? Hér er verið að leggja til ákveðna leið til lausnar á þeim freistnivanda sem nú er í bankakerfinu með því að koma ábyrgðinni frá ríkinu yfir til bankastofnananna sjálfra.

Einnig er stungið upp á því í áliti hv. þingmanns, og mig langar bara að reifa það hér hvort sá kostur sé fýsilegur, að skipta greiðslu innlánsstofnana á milli deilda þannig að allt iðgjaldið fari ekki í A-deild heldur sé því skipt á milli gömlu deildanna svo einhver hluti af iðgjaldagreiðslunni í ár fari í það að standa skil á skuldbindingu gamla sjóðsins, þ.e. Icesave-skuldbindingunni.

Fram kom í nefndaráliti meiri hluta viðskiptanefndar þegar þessi hugmynd var reifuð í byrjun febrúar að ef leggja ætti þá skyldu á starfandi fjármálafyrirtæki að greiða Icesave-skuldbindinguna ætti heldur að gera það skattlagningu, þ.e. að leggja slíkan skatt á fjármálafyrirtækin, því að mikilvægt væri að nota ekki skattlagningu til að hafa bein áhrif á sjóðssöfnun í innstæðutryggingakerfið. Miklu gegnsærri aðferð væri að taka það í gegnum skattkerfið. En þá ber að gæta að því að hugmyndin um hærri bankaskatt, sem notaður er að hluta eða öllu leyti til að greiða Icesave-skuldbindinguna, verði að vera vandlega íhuguð bæði hvað varðar mögulega álagningarprósentu og skattstofn auk áhrif slíkrar skattlagningar á vaxtamun.

Við áætlum að safna um 7 milljörðum kr. á ári inn í nýjan innstæðutryggingarsjóð í gegnum bankakerfið og þess vegna ber að stíga varlega til jarðar. Meðal annars þess vegna höfum við lækkað iðgjaldaprósentuna.

Þá er stungið upp á því að innlán verði ætíð forgangskröfur í bú fjármálafyrirtækja sem væri þá frekar í anda neyðarlaganna og þá hlýtur maður að spyrja sig: Hvernig er ætlast til að fjármálakerfið fjármagni sig til framtíðar? Horfum við ekki fram á of mikinn vaxtamun ef eina fjármögnunarleið bankanna er að gera það í gegnum innstæðutryggingarsjóðskerfið?

Ég ítreka að ég er sammála þeim sjónarmiðum að okkur beri að leita í samevrópskan sjóð en sá valkostur er ekki til staðar og þess vegna tel ég þær hugmyndir ekki raunhæfar að svo komnu máli, en til lengri tíma litið er það skynsamleg lausn.

Að endingu vil ég segja að ég tel að Alþingi ætti að gera þetta frumvarp að lögum vegna þess að við erum í betri stöðu ef við búum til nýjan innstæðutryggingarsjóð en ef við gerum ekkert. Við skilgreinum hér nánar hvað er innstæða og hvað er ekki innstæða. Við setjum þak á verndina en að óbreyttu er ótakmörkuð vernd af hálfu ríkisins á allar innstæður hér á landi og við náum miklu hraðar og betur að safna í sjóði til varnar framtíðaráföllum.

Eins og hæstv. ráðherra kom inn á í ræðu sinni getur sjóðurinn fullfjármagnaður varið einn banka en að sjálfsögðu hlýtur það að vera hagsmunamat ráðamanna hverju sinni hvort og þá hvernig þeir koma banka til aðstoðar sem er í vanda staddur.

Mér finnst að þeir sem hafa verið hvað gagnrýnastir á frumvarpið hafi ekki kveðið nógu skýrt upp úr um með hvaða hætti þeir vilja bregðast við þeirri stöðu sem við búum við í dag. Við búum nú við ótakmarkaða ríkisábyrgð á öllum innstæðum í þessu landi. Við viljum skapa traustan grundvöll um bankakerfi okkar, við viljum komast út úr höftunum, við viljum skapa traust og trúverðugleika til lengri tíma litið og þá er uppbygging á nýjum innstæðutryggingarsjóði lykilatriði.

Til að komast undan þessari ríkisábyrgð, ótakmarkaðri, er nauðsynlegt fyrir okkur að hefjast handa við að safna í nýjan sjóð. Þá er það í anda þeirrar hugmyndar sem Pétur H. Blöndal viðraði áðan, að byrja lítið, byrja smátt en leita um leið eftir samstarfi á evrópskum grundvelli.

Svo verð ég að segja að mér finnst það mjög einkennilegur málflutningur hjá þeim sem ganga hvað harðast fram í gagnrýni sinni á Evrópusambandið, sem er miklu meira en bara evra enda er það samstarf á vettvangi t.d. EES-gerða sem rata hingað inn án þess að við höfum mikið um þær að segja, að gagnrýna sambandið í einu orðinu en telja svo grundvöll þess að við getum varið innstæður í þessu landi þann að við eigum að leita eftir frekara samstarfi á vettvangi Evrópusambandsins. Það er einfaldlega holur málflutningur.

Hér er lagt til að byrja smátt og leita eftir samstarfi í anda þess sem hv. þm. Pétur H. Blöndal lýsti og ég er þess vegna fylgjandi þessu frumvarpi. Við þurfum að byrja einhvers staðar. Hér er leiðin vörðuð að því að búa til traust bankakerfi, að því að búa til traustan innstæðutryggingarsjóð og losna undan þeirri ótakmörkuðu ábyrgð sem ríkið hefur á öllum innstæðum í landinu, á öllum innstæðum lögaðila, fyrirtækja og einstaklinga.