Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 17:29:35 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[17:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir ræðuna en ég losna ekki við þá tilfinningu að það er eins og hv. þingmaður hafi ekki hlustað á umræðuna þó að hann hafi setið hér í salnum.

Ég kom inn á að sú fullyrðing hv. þingmanns um að það sé ríkisábyrgð á innstæðum á Íslandi, sem er forsenda þess að hann leggur málinu lið, stenst ekki. Hv. þingmaður kom ekkert inn á það, eins og ég hefði ekki sagt neitt um það.

Ég sagði: Í stjórnarskránni, 40. gr., stendur, með leyfi frú forseta, enn einu sinni:

„Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið …“ Það má ekki skuldbinda ríkið.

Svo í 41. gr. stendur enn skýrar:

„Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Það vantar forsendur til þess að þetta sé samþykkt. Það er ekki einu sinni búið að setja lög um að það sé ríkisábyrgð á innstæðum. Það eru bara yfirlýsingar fólks úti í bæ sem eru hæstv. ráðherrar. Þeir geta hvorki skuldbundið Alþingi né ríkissjóð og síst af öllu geta þeir gengið þvert á stjórnarskrána. Hv. þingmaður heldur áfram að tala um þetta eins og það sé ríkisábyrgð á innstæðum og þar af leiðandi þurfi að samþykkja þetta.

Svo segir hann að ekki hafi verið komið með neinar lausnir. Ég benti á að nota gömlu tilskipunina frá 1994, 94/19/ESB. Svo talar hv. þingmaður um að ég vilji stundum nota Evrópusambandið og stundum ekki. Evrópusambandið er ágætt. Ég er alveg hlynntur því að vera á Evrópska efnahagssvæðinu, ekki spurning, það er ágætt til síns brúks. En við getum líka gert samninga við önnur ríki. Við getum gert samning við Bandaríkin, ég nefndi það líka. Hv. þingmaður hlustaði ekki heldur þá.

Fyrsta skrefið væri að nota gömlu tilskipunina því að hún er miklu veikari hvað ríkisábyrgð varðar. Þar stendur ekki að ríkið eigi að tryggja innstæður í innstæðutryggingarsjóði.