Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 17:38:21 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[17:38]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef alltaf sagt það í þessari umræðu að á þeim tíma, komi til þess að einn eða fleiri af hinum stóru bönkum falli, muni ríkið taka afstöðu til þess. Fram mun fara hagsmunamat á því með hvaða hætti ríkið eigi að stíga inn í þá atburðarás. Út frá efnahagslegum forsendum mun það að öllum líkindum verða miklu betra fyrir ríkið að styðja og bjarga viðkomandi banka. Það hef ég ætíð sagt og stend við það.

En ef vel gengur að safna í viðkomandi sjóð þá getur hann væntanlega staðið á bak við stærsta hluta af þeim skuldbindingum ef einn af þremur stóru bönkunum fellur. Það hef ég líka ætíð sagt.

Það er ágætt að heyra þessa umræðu um hinn samevrópska sjóð og hér er hv. þingmaður að draga úr líkum á því að samevrópski sjóðurinn verði til því að menn ætli að taka ákvörðun um hvort hann verði til árið 2014. Það finnst mér mjög góðar röksemdir fyrir því að við bregðumst þá við með einhverjum hætti. Fyrst menn ætla að bíða til ársins 2014 til að taka ákvörðun um hvort þeir treysti sér til að búa til samevrópskan sjóð þá vilja menn væntanlega liggja mjög vandlega yfir þeirri ákvörðun og þá er eins gott fyrir okkur að undirbúa hvað við ætlum að gera á okkar vettvangi til að tryggja okkar bankakerfi því að ekki getum við beðið eftir Evrópu. (Gripið fram í.)

Ég tel mjög mikilvægt og það sé jákvæð þróun að hækka viðmiðunartöluna upp í 100 þús. evrur vegna þess að við erum að horfa á hin almenna sparifjáreiganda og við erum að safna fjármunum í takti við þá lágmarksupphæð sem hér um ræðir. Við erum að horfa á hinn almenna sparifjáreiganda. Ég tel sömuleiðis skynsamlegra að miða þá við 100 þús. evrur, eins og lagt er til í frumvarpinu, en að hafa ábyrgðina ótakmarkaða eins og hv. þingmaður er að leggja til að verði veruleikinn því ekki er hann fylgjandi því að frumvarpið verði að veruleika.