Uppbygging á Vestfjarðavegi

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 18:01:36 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

uppbygging á Vestfjarðavegi.

439. mál
[18:01]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um uppbyggingu á Vestfjarðavegi, nr. 60. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Ásbjörn Óttarsson og Gunnar Bragi Sveinsson.

Þannig er mál með vexti að vegamál í Vestur-Barðastrandarsýslu eru í miklum ólestri eins og allir vita. Á undanförnum árum hefur verið reynt að vinna að þessum málum með því að tryggja fjármuni til verkefnanna á þessum slóðum og sérstaklega að leysa það mikla vandamál sem er vegagerðin úr Þorskafirði í Kollafjörð. Þetta á sér allnokkurn aðdraganda og Vegagerðin og aðrir framkvæmdaraðilar sem hafa komið að málinu hafa mjög lengi velt fyrir sér mögulegum leiðum í þessu sambandi.

Mjög margar leiðir voru skoðaðar, m.a. sú að fara yfir þá frægu hálsa Ódrjúgsháls og Hjallháls, en niðurstaða þeirra sem skoðuðu var sú að þetta væri ekki viðunandi lausn á vandanum sem við værum að reyna að takast á við með uppbyggingu vega á þessu svæði.

Þess vegna voru m.a. skoðaðir aðrir kostir, sérstaklega sá að fara með veginn út Þorskafjörðinn að vestanverðu og þvera bæði Gufufjörð og Djúpafjörð og koma að landi við Melanes rétt innan við Skálanes. Sú leið var síðan send í umhverfismat ásamt fleiri kostum. Skipulagsstofnun féllst ekki á þessa leið, sem þó var óskaleið heimamanna, og sá úrskurður var kærður til þáverandi umhverfisráðherra Jónínu Bjartmarz sem kvað upp nýjan úrskurð, heimilaði þessa leið sem kölluð er B-leið, með hins vegar mjög ströngum skilyrðum sem í raun og veru gerði leiðina öðruvísi en upphaflega var lagt af stað með varðandi umhverfismatið. Þannig var komið til móts við þær aðfinnslur sem höfðu orðið, m.a. með því að gera mun strangari kröfur um umhverfismál en áður var.

Niðurstaða hæstv. þáverandi ráðherra var síðan kærð, fyrst til héraðsdóms og síðan áfram áfrýjað til Hæstaréttar sem felldi þann dóm sinn 22. október 2009 að þessi leið væri ekki fær. Það er athyglisvert að fara yfir efnisatriði þess dóms. Trausti Fannar Valsson, lektor í lögfræði, vann lögfræðilega álitsgerð um þetta mál að beiðni Vegagerðarinnar og þar rekur hann niðurstöðu Hæstaréttar eins og við tíundum í greinargerðinni sem fylgir þessu frumvarpi.

Þar segir Trausti Fannar:

„Í fyrsta lagi staðfestir Hæstiréttur þá niðurstöðu héraðsdóms að rannsókn umhverfisráðherra á umferðaröryggi hafi verið fullnægjandi.

Í öðru lagi staðfestir Hæstiréttur þá niðurstöðu héraðsdóms að rannsókn á umhverfisáhrifum á gróðursamfélag á landsvæðinu hafi verið fullnægjandi. […]

Í þriðja lagi staðfestir Hæstiréttur þá niðurstöðu héraðsdóms að umhverfisráðherra hefði ekki horft fram hjá lagaákvæðum sem tryggja eiga sérstaka vernd hafarnarins.

Í fjórða lagi staðfestir Hæstiréttur þá niðurstöðu héraðsdóms að ráðherra hafi tekið fullnægjandi afstöðu til áhrifa framkvæmdarinnar á fornminjar í Teigsskógi.

Í fimmta lagi staðfestir Hæstiréttur þá niðurstöðu héraðsdóms að ráðherra hafi ekki brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar í úrskurði sínum með því að heimila leið B […].

Í sjötta lagi staðfestir Hæstiréttur þá niðurstöðu héraðsdóms að umhverfisráðherra hafi hvorki brotið gegn andmælarétti stefndu né að rökstuðningur ráðherra hafi ekki verið fullnægjandi.

Í sjöunda lagi hafnaði Hæstiréttur því“ — sem var niðurstaða héraðsdóms — „að ráðherra hefði ekki rannsakað nægjanlega áhrif sem leiddu af þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar á strauma í fjörðunum. […]

Í áttunda og síðasta lagi taldi Hæstiréttur að umhverfisráðherra hefði verið óheimilt að lögum að taka tillit til umferðaröryggis við mat á umhverfisáhrifum í úrskurði sínum.“

Þetta er sem sagt staðan og nú erum við komin í fullkomið öngstræti. Við komumst hvorki lönd né strönd varðandi uppbyggingu vegar á þessu svæði þar sem þörfin er þó himinhrópandi og allir hafa í orði kveðnu lýst yfir að ætti að hafa forgang umfram önnur verkefni í vegamálum í landinu. Hæstv. innanríkisráðherra, ráðherra samgöngumála, gerði það síðast fyrir fáeinum vikum þannig að við getum sagt að um þetta sé í raun og veru enginn pólitískur ágreiningur. Ágreiningurinn liggur hins vegar í því með hvaða hætti eigi að fara í þessa vegagerð og það er einfaldlega mat heimamanna að þær leiðir aðrar sem hafa verið nefndar í þessu sambandi gangi ekki upp. Það sem hefur verið boðið upp á í þessu sambandi er fyrst og fremst það að fara með vegina áfram yfir Hjallháls og Ódrjúgsháls eins og núna er gert og mat heimamanna er að það gangi ekki upp, þetta sé ekki fullnægjandi lausn á vegamálum fyrir sunnanverða Vestfirði, þ.e. vegfarendur sem fara þessa leið.

Menn hafa teflt fram ýmsum frekar óútfærðum hugmyndum um að fara t.d. með jarðgöng undir Hjallháls og jafnvel undir Gufudalshálsinn líka. Það vill þannig til að þeir kostir voru skoðaðir mjög rækilega af Vegagerðinni á sínum tíma og niðurstaða Vegagerðarinnar var mjög skýr. Þetta er fær leið en hún kostar bara miklu meiri peninga. Jafnvel á velmektarárunum treystu menn sér ekki til að fara þá leið og þess vegna var málinu vísað frá í raun og veru, því var hafnað á kostnaðarlegum grundvelli.

Ég ítreka að niðurstaða hæstv. fyrrverandi umhverfisráðherra fól ekki í sér umtalsverða röskun á náttúru fjarðanna eins og ég hef þegar rakið. Auðvitað felur öll vegagerð í sér einhverja röskun, það vitum við, en hér er um að ræða gríðarlega mikla hagsmuni íbúanna á sunnanverðum Vestfjörðum sem horfa núna álengdar á endalausar tafir á vegaframkvæmdum á þessum slóðum og m.a. eru enn þá í óvissu hugmyndir sem hafa verið uppi um vegaframkvæmdir í framhaldi af þeirri vegagerð sem ég hef gert að umtalsefni.

Þá stendur eftir ein spurning. Vilji menn ekki fara þá leið sem hér er lögð til, að setja sérstök lög um þessa vegagerð, verða menn að svara spurningunni: Hvað þá, hvað kemur þá í staðinn? Hvað vilja menn þá gera? Það liggur fyrir að það er ekkert svar fyrir íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum að segja: Við skulum fara Hálsaleiðina. Það er heldur ekkert svar að segja: Við skulum fara jarðgangaleiðina einhvern tíma í blámóðu fjarskans. Sú leið er ekki á dagskrá núna í ljósi þeirra þrenginga sem við vitum að við búum við, ekki síst í vegamálunum. Eins og málin blasa við eru þessir tveir kostir til staðar, annars vegar að fara þá leið sem frumvarpið mælir fyrir um og hins vegar að aðhafast ekkert í vegamálum í Gufudalssveitinni gömlu þar sem þessi vegur á að liggja.

Þetta er alvara málsins og þess vegna var það niðurstaða okkar þremenninganna sem leggjum fram þetta frumvarp að það yrði að höggva á þennan hnút, menn yrðu einfaldlega að horfast í augu við blákaldan veruleikann og fara í þessa framkvæmd. Auðvitað hefðum við kosið að þurfa ekki að fara lagasetningarleið, en það er búið að reyna allt til þess að ná sáttum í þessum efnum. Ég sat sjálfur fund í samgöngunefnd Alþingis þar sem þetta var reynt og það kom glögglega fram að ekki eru forsendur til að ná sáttum í þessum efnum. Þá verða þeir sem um véla, og það vill þannig til að það eru bara 63 einstaklingar í landinu sem geta tekið um það ákvörðun, að taka af skarið um hvort þeir vilja heldur hafa engar framkvæmdir á þessum slóðum eða fara þá leið sem hér er lögð til, nema því aðeins að menn hafi aðra frambærilega kosti sem hægt er að tefla fram til lausnar á þessu máli.

Ég tek fram að á bak við þessar hugmyndir er breiður og mikill stuðningur heimamanna. Það kom fram í ályktun Fjórðungssambands Vestfirðinga í fyrrahaust, það kom fram í júlí sl. í ályktun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar sem ég hygg að hafi verið samhljóða. Sömuleiðis hafa sveitarstjórn Tálknafjarðar, bæjarráð Vesturbyggðar og bæjarráð Bolungarvíkur ályktað í þessa veru.

Á föstudaginn var okkur þingmönnum Norðvesturkjördæmis sem áttum heimangengt og gátum heimsótt íbúa í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi afhent áskorun þúsund íbúa á Vestfjörðum þar sem við erum hvött til að samþykkja það frumvarp sem hér er um ræðir, þannig verði hagsmunir íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum best tryggðir.