Fjölmiðlar

Fimmtudaginn 07. apríl 2011, kl. 12:57:46 (0)


139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[12:57]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég tel að ríkisvaldið eigi að skipta sér eins lítið af fjölmiðlum og unnt er af þeim sökum að fjölmiðlarnir eru fjórða valdið og eiga að gegna því hlutverki frjálsir og óháðir, en auðvitað innan þeirra marka sem eðlilegt er að þeim séu sett í samfélagi okkar. Sem efasemdamaður af þessu tagi vil ég segja að ég tel að nefndin hafi bætt verulega úr því frumvarpi sem um ræðir að því leyti sem ég hef haft tækifæri til að fylgjast með og ég fagna flestum breytingum sem lagðar eru til.

Um leið og ég þakka hv. formanni menntamálanefndar fyrir prýðilega ræðu og góða vinnu, og nefndinni allri, vil ég fagna yfirlýsingu hans um skipan fjölmiðlanefndar og spyrja hvort það sé ekki alveg öruggt að nefndin fari vandlega yfir hvort ekki eigi að vera fulltrúar í fjölmiðlanefndinni skipaðir af blaðamönnum, af fjölmiðlafólki sjálfu, þó ekki fjölmiðlamenn heldur fólk sem þeir treysta. Má t.d. benda á siðanefnd Blaðamannafélags Íslands sem stofnun þar sem sá háttur er að vissu leyti viðhafður.

Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt til að byggja upp lágmarkstraust til fjölmiðlanefndarinnar, sem þarf að vera af hálfu blaðamanna og fjölmiðlamanna allra, því að án þess og ef ekki skapast traust er hætt við að þessi lög eða a.m.k. kaflar í þeim verði lítils virði.