Fjölmiðlar

Fimmtudaginn 07. apríl 2011, kl. 13:01:58 (0)


139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[13:01]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni hv. menntamálanefndar fyrir ræðuna þar sem hann fór mjög vel yfir þá vinnu sem nefndin hefur lagt í frumvarpið.

Af því að hér bar á góma athugasemdir frá ESA langar mig að nefna að einhverjar ranghugmyndir virðast hafa verið um í hverju þær fælust. Ég vil árétta að þegar ESA fer fram á að íslensk stjórnvöld skoði ákveðin ákvæði í útvarpslöggjöf sem snúa að almannaútvarpi þá vísar ESA að sjálfsögðu til laga nr. 6/2007, eða laga um Ríkisútvarpið. Svo virðist sem einhverjir hafi misskilið ákvörðun ESA og telji að hún eigi heima í þessu fjölmiðlafrumvarpi en til að það sé sagt og því sé haldið til haga hefur ESA verið upplýst af hálfu íslenskra stjórnvalda um að til greina komi í endurskoðun þeirra laga um Ríkisútvarpið ohf. að mæla fyrir um að starfsemi á samkeppnisforsendum verði flutt yfir í sérstakt dótturfélag með fullum fjárhagslegum aðskilnaði við móðurfélagið. Þá er til að mynda verið að vísa í auglýsingasölu, útgáfu efnis á mynddiskum, samframleiðslu sjónvarpsefnis og fleira. Það liggur því fyrir að sameiginlegur skilningur íslenskra stjórnvalda og ESA er að þetta eigi heima í lögum um Ríkisútvarpið.