Fjölmiðlar

Fimmtudaginn 07. apríl 2011, kl. 14:05:14 (0)


139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[14:05]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég fagna því hvað þetta mál er komið langt. Það hefur tekið miklum umbótum í meðförum menntamálanefndar. Það eru nokkur atriði sem mig langar til að tæpa á sem lúta að stærri umgjörðinni sem þetta mál fellur inn í, þeirri umgjörð sem þeir vita um sem þekkja til fjölmiðlunar og ástandsins á fjölmiðlum út af ákveðinni þróun sem á sér stað. Sú þróun er þannig að flestir neytendur fjölmiðla nota fjölmiðla á netinu en ekki á hefðbundinn hátt. Fjölmiðlar virðast eiga undir högg að sækja, þeir hafa ekki fundið leiðir til að fá fjármagn á netinu, þ.e. sömu tekjur og þeir höfðu þegar þeir seldu prentuð blöð eða buðu áskrift á annan hátt. Það er gríðarlega mikilvægt umfjöllunarefni núna þegar fjölmiðlar standa höllum fæti og mjög algengt er að þeir hafi t.d. ekki tök á að hafa rannsóknarblaðamenn í starfi. Því miður er yfirleitt skorið niður í rannsóknarblaðamennsku sem ætti ekki að vera lúxus, á svona tímum er hún eitt það almikilvægasta sem við getum haft og hún á að hafa forgang. Því miður er það ekki hægt. Ég kann ekki nákvæmlega skýringar á því nema að það er kannski litið á hagkvæmni og leiðir til þess að halda fjölmiðlunum yfir höfuð á floti.

Á svona tímum er gríðarlega mikilvægt að grunnstoðir fjölmiðlunar séu skýrar og sterkar lagalega séð. Þetta fjölmiðlafrumvarp er svo sannarlega skref í rétta átt, að uppfæra löggjöfina í kringum fjölmiðla hérlendis. Að mörgu leyti má segja að andinn í því og þeirri þingsályktunartillögu sem hér var samþykkt fyrir tæpu ári um að við mundum taka okkur afgerandi lagalega sérstöðu varðandi upplýsinga- og tjáningarfrelsi sé sá sami. Ég fagna því að sjá tilraun í þessu frumvarpi til að nota tillögurnar sem við vorum með í þeirri þingsályktun um vernd heimildarmanna. Það vantar aðeins upp á og ég vona að það verði leyft í allsherjarnefnd. Þetta er gríðarlega mikilvægt hérlendis af því að við erum svo lítið samfélag. Undanfarið höfum við upplifað tilraunir til að þvinga fjölmiðla til að gefa upp heimildarmenn. Þetta er rétt að byrja. Þegar ég tók eftir viðleitni Kaupþings til að fara fram á að RÚV flytti ekki frétt fann ég innra með mér að þetta væri bara upphafið og mundi gerast aftur, sem hefur orðið. Þrátt fyrir erfiðleika í fjölmiðlaheiminum og óöryggi hjá fjölmiðlafólki í kjarabaráttu sinni er þetta gríðarlega mikilvægt og ég vonast til þess að fólk almennt séð fylki sér á bak við og fagni þeim hornsteini í íslenskum fjölmiðlum sem þetta frumvarp setur. Fólk var að vinna eftir löggjöf sem var samin löngu fyrir tíma internetsins og annarra tegunda nútímafjölmiðlunar.

Mér finnst líka mjög mikilvægt að í þessu stóra samhengi gerum við okkur grein fyrir því að upplýsinga- og málfrelsi er grunnstoð lýðræðisins. Ef við höfum ekki upplýsinga- og málfrelsi og tryggjum ekki mjög styrkar stoðir undir því búum við ekki við lýðræði. Mig langar til að deila því með ykkur að þingsályktunin um upplýsinga- og tjáningarfrelsi sem við öll samþykktum hefur vakið gríðarlega mikla athygli, en ekki bara það heldur hefur hún verið fyrirmynd víðs vegar um heim fyrir þá sem vilja færa lögin sín að nútímanum. Þess vegna finnst mér gríðarlega mikilvægt að við leyfum ekki ráðuneytunum að komast upp með að draga lappirnar við að klára að koma þessum lögum í gegn. Þau eru ekki öll flókin en hugmyndafræðin á bak við þessa þingsályktun og hvernig við unnum hana hjálpar t.d. við vinnu með löggjöf um heimildarmannavernd þar sem lagasetningin fellur undir nokkur ráðuneyti, eitt eða tvö eða þrjú.

Ég vonast til þess að akkúrat það sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sagði á undan mér rætist. Mér finnst svo mikilvægt að við fáum að upplifa meiri samvinnu sem ég hef fundið fyrir í nokkrum málum og nokkrum nefndum og virðist aukast. Við verðum að muna að við náum ekki róttækum breytingum á því hvernig við hugsum og högum okkur á einum degi, en t.d. þetta mál og önnur eins og í umhverfisnefnd sem eru stór og viðamikil hafa verið unnin í mikilli sátt. Það gefur manni tilefni til að hlakka til að fara í vinnuna.

Ég ætla ekki að hafa öllu fleiri orð um þetta. Ég fagna þessum áfanga og hlakka til að sjá hvernig unnið verður á milli 2. og 3. umr. úr þeim hnökrum sem þó eru á málinu því að það er mikið og flókið. Ég hvet allsherjarnefnd til að styrkja það sem skiptir svo miklu máli í samfélagi okkar, löggjöfina í kringum heimildarmenn.