Fjölmiðlar

Fimmtudaginn 07. apríl 2011, kl. 14:21:52 (0)


139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[14:21]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á að ítreka athugasemdina sem ég kom með áðan varðandi fundarstjórn forseta, að fjallað skuli vera um fjölmiðlalöggjöfina núna, þá mikilvægu löggjöf. Við hlustum á umræður sem undirstrika efni málsins og mikilvægi frumvarpsins á sama tíma og mikilvægir fundir eru haldnir akkúrat í dag um brýn málefni sem snerta þjóðina. Í fyrsta lagi er hægt að nefna fund sem Háskóli Íslands stóð fyrir í hádeginu með forustumönnum flokkanna um þjóðaratkvæðagreiðsluna vegna Icesave sem fer fram á laugardaginn. Það er hægt að nefna fundi núna klukkan tvö þar sem Samtök atvinnulífsins halda aðalfund eða fund klukkan þrjú sem innanríkisráðherra heldur með þingmönnum suðvesturhornsins og Suðurkjördæmis. Á fundi klukkan þrjú verða fleiri en meiri hluti þeirra þingmanna sem styðja stjórnina. Síðan klukkan hálffimm er ársfundur Seðlabankans og um leið 50 ára afmæli hans fagnað hér í borginni. Á alla þessa viðburði er þingmönnum boðið. Ég tel eðlilegt að þeir séu viðstaddir þá til að fylgjast með gangi mála. Því finnst mér miður að við getum ekki tekið víðtækari umræðu um þetta mál þar sem einungis ég og tveir aðrir þingmenn erum stödd í salnum. Það finnst mér vont.

Í ljósi þeirrar sögu sem tengist fjölmiðlum og fjölmiðlafrumvörpum sem hafa verð lögð fyrir þingið hefðum við svo gjarnan viljað sjá fjölmiðlafrumvarpið verða að lögum á sínum tíma. Ég hef sagt það áður. Það er hægt að deila um aðferðafræðina að einhverju leyti en ég tel að það hafi verið reginmistök að samþykkja ekki fjölmiðlafrumvarpið 2004, að koma því ekki í gegn. Í kjölfar viðburða sem þá urðu, þ.e. synjunar forsetans og því að frumvarpið og þau lög voru afturkölluð af hálfu þingsins, dregin til baka, var skipuð nefnd allra flokka til þess einmitt að reyna að ná þverpólitísku samkomulagi sem var mikilvægt eftir aðdragandann og viðburðina 2004. Ákveðið samkomulag náðist með fjölmiðlanefndinni sem var skipuð af hálfu allra flokka og gekk yfir alla fjölmiðla. Tekið var m.a. á eignarhaldi sem var eitt það viðkvæmasta í tengslum við fjölmiðlafrumvarpið 2004. Vinstri menn gátu ekki hugsað sér — vinstri mennirnir sem sitja reyndar núna í ríkisstjórn — að snerta á eignarhaldi árið 2004 og geta ekki enn þá hugsað sér það. Það þarf því ekki að koma á óvart að það er ekki í þessu frumvarpi.

Í frumvarpinu sem liggur fyrir og við ræðum í dag eru ákveðnir partar sem eru skiljanlegir. Þá vil ég taka sérstaklega frá. Það eru þeir þættir sem eru tengdir Evrópuráðslöggjöfinni eða Evrópuráðinu. Þeir þættir frumvarpsins eru skiljanlegir og þá er hægt að taka undir en ekki aðra þætti. Ég tel að fulltrúi okkar í menntamálanefnd, hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, hafi farið mjög gaumgæfilega yfir afstöðu okkar sjálfstæðismanna hvað þessu viðkemur.

Ég hefði talið að fyrst ríkisstjórnin sýnir slíkt kjarkleysi með framlagningu frumvarpsins, sem nú er rætt um sem fjölmiðlafrumvarp, hefði verið betra að taka einfaldlega þá þætti sem tengjast Evrópuráðinu inn í frumvarpið en láta aðra óhreyfða og koma þannig með heildstæða löggjöf um fjölmiðla sem tæki ekki bara á eignarhaldinu heldur líka samkeppnisstöðunni á markaði og menn létu sér ekki í léttu rúmi liggja það sem Samkeppniseftirlitið hefur sagt um stöðuna á fjölmiðlamarkaði með tilliti til Ríkisútvarpsins. Ég hefði viljað sjá tekið á því á mun heildstæðari hátt en nú er gert. Kjarkleysi? Já, þetta er ekki einu sinni bútasaumur.

Ég hefði talið í ljósi þeirrar reynslu sem hinir pólitísku flokkar hafa staðið frammi fyrir varðandi fjölmiðlalöggjöfina að það hefði verið betra að reyna að ná pólitísku samkomulagi um hvert við stefnum með þessari löggjöf.

Ég undirstrika það sem ég sagði áður, við 1. umr. um þetta tiltekna frumvarp, að ég er alfarið á móti því sem lagt var upp með og tengist Fjölmiðlastofu. Ég veit að sumir embættismenn ráðuneytisins og starfsmenn hafa sagt að frumvarpið sé að grunni til það frumvarp sem var sett fram eða samið á sínum tíma undir minni handleiðslu. Að hluta til er það svo en ekki það sem snertir Fjölmiðlastofu. Ég var alfarið á móti því að koma upp miðstýrðu eftirliti, svona stofnun, eins og verið er að gera og fannst fyrirkomulagið ágætt eins og það var, að setja m.a. Neytendastofu í það hlutverk sem Fjölmiðlastofu er nú falið. Þetta er óþarfakostnaður fyrir það fyrsta sem leggst á skattgreiðendur, nema hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sé búin að gera ráð fyrir því hvar hún ætlar að skera niður á móti. Það eru ýmis önnur brýn verkefni sem það ráðuneyti þarf að standa fyrir. Ég hefði talið rétt að þeim fjármunum væri betur varið í þau verkefni.

Stóra málið er að sjálfsögðu þær valdheimildir sem fjölmiðlanefndinni eru veittar. Ég held að það sé hægt að tortryggja þær. Það var varað sérstaklega við því í nefndaráliti þingmanna okkar sjálfstæðismanna, hv. þingmanna Unnar Brár Konráðsdóttur og framsögumanns okkar, Ragnheiðar Ríkharðsdóttur. Í því var varað sérstaklega við þessari nefnd. Það geri ég líka og geri orð þeirra í nefndarálitinu að mínum.

Ég undirstrika líka það sem ég hef sagt varðandi eignarhaldið. Ég tel slappt að menn þori ekki einu sinni að snerta á því og senda það því aftur í enn eina nefndina. Mér leikur forvitni á að vita hvernig menn sjá það fyrir sér. Ætla menn að endurskoða lögin um Ríkisútvarpið? Það kæmi ekki á óvart því að í ríkisstjórn eru sömu flokkarnir og voru algjörlega á móti því að breyta Ríkisútvarpinu í opinbert hlutafélag. Það er rétt að geta þess að í rúmlega 80 ára sögu Ríkisútvarpsins hefur það í fyrsta sinn í tvö ár samfellt verið rekið án halla. Núverandi útvarpsstjóri lýsti því yfir á sínum tíma þegar breytingin gekk í garð að það þyrfti tvö ár til að koma Ríkisútvarpinu, stofnuninni, á réttan kjöl. Það hefur lengi verið krafa af hálfu okkar sjálfstæðismanna að menn þyrftu loksins að hysja upp um sig buxurnar og reka stofnunina með sóma. Það hefur tekist, m.a. út af því að rekstrarforminu var breytt.

Við getum hins vegar tekið undir ýmsar gagnrýnisraddir varðandi Ríkisútvarpið. Það þarf að fylgja betur eftir þjónustusamningi þess, að efla þær kröfur og styrkja sem við gerum og leggjum á herðar Ríkisútvarpinu varðandi menningarhlutverk þess og almannaþjónustu. Það er gömul saga og ný, öll umræðan um Ríkisútvarpið. Það er þó komið á beinu brautina hvað varðar reksturinn. Vel hefur verið tekið til í þeim málum. Þeir sem því stýra mega svo sannarlega eiga það.

Það verður fróðlegt að sjá hvaða tillögur vinstri menn koma með til að taka á Ríkisútvarpinu, hvort þeir ætli að breyta því aftur í þá veru sem það var í eða koma því á fjárlög sem ég vara eindregið við.

Þegar við ræðum fjölmiðlalöggjöfina finnst mér óvissan í rauninni vera mjög mikil. Hvaða mynd er verið að bregða upp af fjölmiðlum á landinu? Hvaða starfsumhverfi er verið að setja fjölmiðlum á landinu? Umhverfi einkarekinna fjölmiðla er erfitt. Bent hefur verið á það af ESA og Samkeppniseftirlitinu. Á því verður að taka. Það er ekki gert og þess vegna er óvissan enn til staðar.

Af því að ég nefndi Ríkisútvarpið í ræðu minni áðan, kom aðeins inn á að skiptar skoðanir hefðu verið um Ríkisútvarpið sem aðila að auglýsingamarkaðnum, þá tekur Ríkisútvarpið þátt í að sýna auglýsingar eins og við þekkjum, tekur fyrir það greiðslu o.s.frv. Mín skoðun hefur verið sú, sem fékk því miður ekki brautargengi, pólitískan stuðning, á sínum tíma, að taka Ríkisútvarpið að hluta til af auglýsingamarkaði með því að takmarka tíma þess til auglýsinga. Ég velti mikið fyrir mér að taka upp svipað fyrirkomulag og var hjá þýsku stöðvunum ARD og ZDF en þær voru með auglýsingar leyfðar frá kl. 6–8 á kvöldin, annars voru þær bannaðar. Að minnsta kosti verður að taka á því hvernig Ríkisútvarpið á að vera á auglýsingamarkaði. Það hefur ekkert með framferði Ríkisútvarpsins að gera eins og það er núna. Ríkisútvarpið vinnur eðlilega samkvæmt þeim reglum sem eru leyfðar og það verður að gera það. Við stjórnmálamennirnir höfum hins vegar búið til þessar reglur. Við verðum að bregðast við því áliti sem kemur fram af hálfu ESA. Þess vegna tel ég mikilvægt að umræðan verði tekin fyrr en síðar varðandi það hvernig við sjáum fjölmiðla á auglýsingamarkaði. Að mínu mati eru breytingar óhjákvæmilegar til þess að einkareknir fjölmiðlar hafi meira svigrúm en þeir hafa núna í þröngri aðstöðu fyrirtækja til að kaupa auglýsingar, að svigrúmi Ríkisútvarpsins verði settar skorður en um leið tekið tillit til þess að Ríkisútvarpið hefur ákveðnu hlutverki að gegna. Við höfum í megindráttum verið sammála um að það hafi ríkum skyldum að gegna varðandi almannaþjónustu og menningarhlutverk og þeim verði að sinna. Taka verður tillit til þess ef Ríkisútvarpið verður skert á auglýsingamarkaði. Ég er að hugsa um fjölbreytnina. Ég er að hugsa um að einkareknir fjölmiðlar geti rekið sig til lengir tíma. Það finnst mér þeim ekki vera gert mögulegt í dag og mótmæli því harðlega frumvarpinu sem fyrir liggur og við ræðum nú.

Það er hægt að taka undir allt sem hefur verið sagt um mikilvægi fjölmiðla, um rétt okkar allra í samfélaginu til tjáningarfrelsis, rétt til upplýsinga, rétt til fjölmiðlalæsis, fjölbreytni og fjölræðis í fjölmiðlum. Eins og við höfum sagt tekur frumvarpið ekki á þessum þáttum nákvæmlega. Að mati okkar sjálfstæðismanna gengur það að vissu leyti gegn ákveðnum hugmyndum um tilgang fjölmiðla og umhverfi þeirra.

Frú forseti. Ég vil ljúka ræðu minni á því að ítreka að ég hefði einfaldlega viljað sjá okkur afgreiða það sem tengist fjölmiðlum og snertir Evrópuráðið og byggist á því sem þarf að gera á alþjóðavettvangi. Það þýðir ekki að skýla sér á bak við þær reglur til að koma á miðstýrðum stofnunum eins og Fjölmiðlastofu. Það gengur ekki. Þess vegna erum við sjálfstæðismenn á móti öðrum þáttum sem tengjast m.a. stjórnsýslunni allri í sambandi við fjölmiðla, þannig að það sé sagt. Ég hef ávallt verið á móti leið eins og þeirri sem kynnt er hér.

Það má síðan deila um það sem snertir vernd barna gegn auglýsingum og skaðlegu efni. Við ítrekum að sjálfsögðu að alltaf eigi að vernda hagsmuni barna og hagsmunir þeirra eigi að vera settir í forgang. Ég sé ekki að það verði gert með því að binda allt í lög og hafa allar þær takmarkanir í auglýsingum sem verið er setja með þessu frumvarpi. Það kemur hins vegar ekki á óvart að vinstri menn og vinstri ríkisstjórnir velji bannið fyrst og treysti ekki þeim sem eru hvorki á markaði né þeim einstaklingum sem eiga hlut að máli og miðla upplýsingum. Mér finnst það miður að vinstri stjórnin fari alltaf þessa tortryggnisleið, leið hafta, leið banns, eins og kristallast í frumvarpinu sem og svo mörgum öðrum málum á þingi og við höfum margoft bent á og getum týnt margt til.

Að öðru leyti munum við síðan gera grein fyrir atkvæðum okkar þegar kemur að því að greiða atkvæði um fjölmiðlamálið sem slíkt. Mér þykir miður að slíkt kjarkleysi skuli birtast í þessu fjölmiðlafrumvarpi og þau erfiðu mál, sem ég hef drepið hér á og snerta eignarhaldið og Ríkisútvarpið, séu enn og aftur sett í nefnd. Það er nóg til af upplýsingum. Við höfum öll skoðanir hérna. Við vitum hvaða leiðir er hægt að fara. Þær hefði verið hægt að fara ef menn hefðu einfaldlega haft dug og kjark og gefið sér tíma til þess.