Fjölmiðlar

Fimmtudaginn 07. apríl 2011, kl. 15:10:49 (0)


139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[15:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé prýðilega gert ráð fyrir leikreglum einmitt í þessu frumvarpi. Við erum að leggja af stað t.d. með það að í fyrsta sinn verða settar reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði. Ég held að við séum sammála um það, hv. þingmenn í þessum sal, að það skiptir mjög miklu máli að til verði þessi eldveggur á milli eigenda fjölmiðlanna annars vegar og ritstjórnanna og fréttastofanna hins vegar. Þannig að við getum einmitt treyst því, borgarar í landinu, að fréttirnar séu ekki að neinu leyti mengaðar af hagsmunum eigenda fjölmiðlanna. Þetta er eitt af því sem fjölmiðlanefndinni er ætlað að hafa eftirlit með, þ.e. ekki að stafa það ofan í miðlana nákvæmlega hvernig þessar reglur eiga að líta út en tryggja að fjölmiðlar, eigendur þeirra og blaða- og fréttamenn setjist niður og semji reglur af þessu tagi í sameiningu.

Eitt atriði vil ég gera athugasemd við í ræðu þingmannsins og það var varðandi fjölmiðlanefndina þar sem hv. þingmaður vísaði til að með henni væri verið að færa mikil völd til mennta- og menningarmálaráðherra. Það er einmitt ekki verið að því. Það er verið að skipa sjálfstæða stjórnsýslunefnd sem er ekki sett undir vald ráðherrans að því leyti til að það er ekki hægt að skjóta úrskurðum nefndarinnar til ráðherrans í því skyni að snúa þeim úrskurðum við. Það er einmitt verið að tryggja það, eins og gert er í flestum ef ekki öllum þeim löndum sem heyra undir þessa hljóð- og myndmiðlunartilskipun, að skapa þessum aðilum, hvort sem þetta eru litlar nefndir eins og hjá okkur eða stórar stofnanir með hundruð eða þúsundir starfsmanna, að þær séu einmitt sjálfstæðar en ekki skipaðar undir hið pólitíska vald á hverjum tíma.