Fjölmiðlar

Fimmtudaginn 07. apríl 2011, kl. 15:15:51 (0)


139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[15:15]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Um fá mál hefur jafnmikið verið fjallað í þessum sal á Alþingi og málefni fjölmiðla á síðustu árum. Ég held að ég hafi með einum eða öðrum hætti komið að umfjöllun um þau frumvörp sem verið hafa til meðferðar frá árinu 2004. Mjög hart hefur verið deilt um þau frumvörp sem rekið hefur á fjörur Alþingis varðandi fjölmiðla alveg frá þeim tíma. Mér sýnist að um það frumvarp sem við ræðum hér, sem er rammalöggjöf um fjölmiðla, sé ágreiningur eins og önnur frumvörp sem varðað hafa fjölmiðla og við höfum haft til meðferðar á umliðnum árum.

Það var hart tekist á um það þegar þáverandi hæstv. ríkisstjórn lagði fram svokallað fjölmiðlafrumvarp árið 2004. Meginmarkmiðið með því frumvarpi var að reyna að tryggja fjölbreytni og fjölræði á fjölmiðlamarkaði með því að taka á eignarhaldi fjölmiðla og reyna að koma í veg fyrir að aðilar sem væru markaðsráðandi á öðrum mörkuðum en fjölmiðlamörkuðum rækju fjölmiðil. Það þarf svo sem ekki að rekja þá sögu að öðru leyti en því að fjölmiðlafrumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi en forseti lýðveldisins synjaði þeim lögum staðfestingar. Aldrei gekk málið þó til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég man líka eftir öðrum málum sem verið hafa til umfjöllunar og verið gríðarlega umdeild. Þá á ég fyrst og fremst við þau frumvörp sem voru til umfjöllunar líklega á árunum 2005–2006 eða 2007, fyrst frumvarp til laga um Ríkisútvarpið sf., síðan var því breytt og lagt til að Ríkisútvarpið yrði hlutafélagavætt og gert að hlutafélagi. Að lokum, í síðustu atrennunni, var lögum um Ríkisútvarpið breytt á þann veg að Ríkisútvarpið var gert að opinberu hlutafélagi sem það er í dag og skiptar skoðanir eru um, alveg eins og þegar það mál var til meðferðar og menn ræddu það dag og nótt á löngum næturfundum á hinu háa Alþingi. Ég held að öll þau sjónarmið og álitamál sem fram hafa komið í þessari umræðu í tengslum við það frumvarp sem er til meðferðar séu að vissu leyti gamlir kunningjar sem flestir hafa skoðun á og hafa tekið afstöðu til. En tilfinning mín er samt sem áður sú að þó að áherslur milli stjórnmálaflokka almennt um starfsumhverfi fjölmiðla og hvernig lagarammi eigi að vera um starfsemi þeirra, sé kannski ekki svo langt á milli manna og á milli stjórnmálaflokka um það hvernig við viljum haga löggjöf um fjölmiðla sem er mikilvæg og við getum öll verið sammála um að þarf að breyta.

Þegar ég kynnti mér frumvarpið og renndi í gegnum þau nefndarálit sem fyrir liggja frá fulltrúum stjórnmálaflokkanna í hv. menntamálanefnd fannst mér skorta á að tekið væri á þremur helstu ágreiningsefnunum sem tekist hefur verið á um í umræðu um fjölmiðla og lög um þá á umliðnum árum. Í fyrsta lagi skortir á að í frumvarpinu sé tekið á málefnum Ríkisútvarpsins. Ræða þarf fjölmarga þætti sem snúa að Ríkisútvarpinu og menn þurfa að komast að einhverri niðurstöðu um hvernig þeir eiga að vera. Fjármögnun Ríkisútvarpsins er eitt og við vitum að nú liggur fyrir að Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemdir við fjármögnun þess félags eins og því er komið fyrir í lögum um Ríkisútvarpið eins og þau eru nú. Ég hefði talið að í tengslum við rammalöggjöf um fjölmiðla hefði verið eðlilegt að taka málefni Ríkisútvarpsins með inn í þá umræðu vegna þess að Ríkisútvarpið er langstærsti aðilinn á fjölmiðlamarkaði. Við ræðum ekkert um fjölmiðla með því að taka Ríkisútvarpið út fyrir sviga.

Á þessum markaði ríkir samkeppni en sú samkeppni er ákaflega brengluð vegna þess að stærsti fjölmiðillinn nýtur svo mikils forskots á við einkareknu fjölmiðlana. Þess vegna er mikilvægt þegar menn ræða um fjölmiðla að taka á samkeppnisstöðunni sem ríkir á fjölmiðlamarkaði og taka þá stöðu Ríkisútvarpsins til sérstakrar umfjöllunar á því sviði.

Við vitum það, ég og hv. þm. Skúli Helgason sem hefur starfað við fjölmiðla, þekkir þá vel og hefur setið í a.m.k. einni nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins sem hafði það að markmiði að fjalla um framtíðarfyrirkomulag á fjölmiðlamarkaði, að einkareknu miðlarnir kvarta mjög yfir fyrirferð Ríkisútvarpsins á markaðnum sjálfum, ekki bara vegna fjölda rása eða slíks heldur fyrst og fremst fyrirferð Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Á því er ekki tekið í frumvarpinu. Það er annar af þeim þáttum sem ég vildi nefna sem mér finnst skorta að tekið sé á í tengslum við frumvarpið.

Það er gömul saga og ný að einkareknu fjölmiðlarnir, hvort sem það eru ljósvakamiðlar eða prentmiðlar, hafa kvartað mjög mikið undan fyrirferð Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði og þeir hafa sýnt fram á það með tölum að vera ríkisins á þeim markaði hefur skaðað einkarekna markaðinn alveg gríðarlega og gerir einkaaðilum mjög erfitt fyrir að reka fyrirtæki sín.

Í þriðja lagi vantar inn í frumvarpið einhverja stefnumörkun varðandi eignarhaldið sem við höfum tekist á um allt frá því að fjölmiðlafrumvarpið var til umfjöllunar og menn hafa svo sem verið að hugsa um árum saman og ég hygg að flestir vilji koma í einhvern lagalegan farveg. En í stað þess að gera atlögu að því er því álitamáli, eins og hinum tveimur sem ég nefndi áðan varðandi Ríkisútvarpið og varðandi veru ríkisins á auglýsingamarkaði, svo að segja stungið undir stól og umfjöllun um vandræðamál fjölmiðlanna frestað. Það finnst mér vera verulegur galli á því frumvarpi sem liggur fyrir. Menn hafa haft í höndunum þessar þrjár heitu kartöflur en ákveðið að kæla þær úti í horni og taka önnur atriði, sem vissulega skipta máli, einvörðungu til umfjöllunar.

Ég ætla svo sem ekki að fara efnislega yfir það sem fram kemur í nefndarálitum meiri hluta og minni hluta sem liggja fyrir í þessum málum að öðru leyti en því að ég leyfi mér að taka undir þau sjónarmið sem fram koma í nefndaráliti minni hluta menntamálanefndar sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir mælti fyrir og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir undirritaði. Þar eru sjónarmið sem mér finnst ástæða til að taka undir og ég styð.

Ég geri ráð fyrir að frumvarpið gangi til hv. menntamálanefndar milli 2. og 3. umr. þar sem þau fjölmörgu álitaefni sem upp hafa komið og enn eru óleyst verða tekin til frekari efnislegrar umfjöllunar og meðferðar. Eitt þeirra hefur verið nefnt í umræðunni. Það er ákvæði 24. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um ritstjórnarlegt sjálfstæði. Þar segir að fjölmiðlaþjónustuveitendur, sem eru væntanlega eigendur fjölmiðlanna, skuli setja sér reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra starfsmanna sinna sem sinna fréttum og fréttatengdu efni og að slíkar reglur skuli samdar í samráði við viðkomandi starfsmenn og eftir atvikum starfsmannafélag þeirra. Síðan koma fram viðmið í ákvæðinu um hvað skuli koma fram í þeim reglum. Þar segir að þær skuli sendar til fjölmiðlastofu til staðfestingar, þær skuli endurskoðaðar árlega og að tilkynna skuli fjölmiðlastofu þegar endurskoðun hafi farið fram og senda hina nýju útgáfu að reglunum til staðfestingar hafi breytingar verið gerðar.

Það ákvæði í frumvarpinu er sett fram í göfugum tilgangi, ég geri ekki lítið úr því. Markmiðið er að tryggja að þeir sem starfa á ritstjórnum fjölmiðlanna hafi frelsi og sjálfstæði til að taka með sínum hætti á þeim málum sem þeir fjalla um. Það er út af fyrir sig ákaflega gott, ekki síst vegna þess að við höfum auðvitað fjölmörg dæmi um það á síðustu árum að eigendur einstakra fjölmiðla hafa verið með puttana í því hvernig fréttamenn á þeirra miðlum hafa hantérað, ef svo má segja, eða sett fram þær fréttir sem fréttastofurnar fjalla um og við höfum staðfest dæmi um að svo sé. Ágæt grein sem rituð var í dagblað fyrir nokkrum missirum síðan undir fyrirsögninni Kæri Jón staðfestir það og ég veit að hv. þm. Skúli Helgason þekkir þá grein eins og fleiri hv. þingmenn. Það er auðvitað ekki eina dæmið, við þekkjum það í umfjöllun fjölmiðla að einstakir fréttamenn hafa kvartað undan afskiptum eigenda þeirra fjölmiðla sem þeir hafa starfað við af fréttaflutningi. Með ákvæði í 24. gr. frumvarpsins er reynt að bregðast við þessu. Ég tel að það sé viðleitni í þá átt að reyna að bregðast við þeirri gagnrýni og þeim athugasemdum sem fram hafa komið á slíkt framferði.

Vandinn er hins vegar sá, og sá vandi hefur svo sem verið ræddur í allri umræðunni sem átt hefur sér stað á umliðnum árum um fjölmiðlalög og reglur sem gilda skuli um fjölmiðla, að inn í ákvæðið vantar einhverja reglu um hvernig með skuli fara ef þeir sem kallaðir eru fjölmiðlaþjónustuveitendur í frumvarpinu, sem eru þá eigendur fjölmiðilsins, virða ekki reglurnar um ritstjórnarlegt sjálfstæði. Mér finnst að það sé atriði sem hv. menntamálanefnd og hv. þingmenn sem þar sitja þurfa að gera upp við sig. Vilja þeir og telja þeir ástæðu til þess að við ákvæðið verði skeytt einhverju ákvæði sem kveður á um viðurlög gagnvart þeim sem brjóta gegn ákvæðum 24. gr. frumvarpsins? Ég heyrði ekki betur en hv. þm. Skúli Helgason, formaður menntamálanefndar, hefði tekið þeim ábendingum vel sem fram koma í nefndaráliti minni hluta menntamálanefndar og vilji taka það atriði sérstaklega til skoðunar. Ég fagna því.

Hitt er svo annað mál og það má velta því fyrir sér í umræðunni hvort eðlilegt sé að slíkar reglur séu í lögum um fjölmiðla og velta síðan fram þeirri spurningu: Er óeðlilegt að eigandi fjölmiðils hafi einhver afskipti af ritstjórnarstefnu þess fjölmiðils sem hann á og rekur? Segjum sem svo að ég hafi fjárfest í einhverjum fjölmiðli sem ég tel sem eigandi fjölmiðilsins að eigi að fjalla um einhver tiltekin atriði eða einhver tiltekin málefni. Ég ræð mér starfsmenn á ritstjórn til að sinna því hlutverki en af einhverjum ástæðum skipta þeir um kúrs og fara að fjalla um annað en til stóð þegar ég fjárfesti í fjölmiðlunum og réð þá til starfa. Hef ég þá ekki rétt á því sem eigandi miðilsins að hafa einhver afskipti af ritstjórnarstefnunni? Felst það ekki í eigendavaldi mínu að gera athugasemdir við hvernig á málum er haldið á þeim fjölmiðli? Það er auðvitað hægt að taka ýkt dæmi um mann sem stofnar bílablað en síðan tekur ritstjórn bílablaðsins ákvörðun um að fjalla um eitthvað annað en mál sem snúa að bílum. (Gripið fram í.)

Það má kannski taka nærtækara dæmi sem er að það kann að vera að einhverjir aðilar hér í bæ telji sig hafa hagsmuni af því að stofna fjölmiðil sem hefur það að markmiði að flytja fréttir og sjónarmið sem væru andstæð aðild Íslands að Evrópusambandinu og þeir mundu ráða inn á ritstjórn sína menn sem þeir teldu að væru sama sinnis varðandi það álitaefni. Síðan kynnu þeir ágætu starfsmenn að skipta um skoðun og fara að reka áróður fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þá vaknar spurningin: Má eigandinn eða fjölmiðlaþjónustuveitandinn í því tilviki ekki hafa skoðun á breyttri ritstjórnarstefnu? Ég tek ekki afstöðu til þess. Ég bendi bara á það sjónarmið í umræðunni um hugmyndina yfir höfuð að ritstjórnarlegu sjálfstæði. Ég vil ekki að menn misskilji mig, ég stend alveg við það sem ég sagði við upphaf umfjöllunar minnar um að mér finnst hugmyndin á bak við ákvæðið vera göfug og til þess fallin að fréttaflutningur fréttamanna sé sjálfstæður og ekki undir oki eigenda fjölmiðilsins, en eigi ákvæðið að ná fram markmiðum sínum og vilji er til að það sé gert tel ég að það sé mikilvægt að skerpa á ákvæðinu eins og það er. Ég vildi bara varpa fram hinu sjónarmiðinu í umræðunni.

Það er auðvitað fjölmargt annað sem ástæða væri til að fjalla um í frumvarpinu sem er gríðarlega viðamikið og meðfylgjandi er greinargerð upp á mörg hundruð blaðsíður. En ég leyfi mér í lokin að varpa fram þeirri áskorun til nefndarmanna í menntamálanefnd að taka til gagngerrar skoðunar þann þátt sem snýr að þeirri stjórnsýslu sem kveðið er á um í frumvarpinu. Ég er þeirrar skoðunar og tek undir það að hún er ómarkviss og óljós og til þess fallin að skapa réttaróvissu varðandi þá sem starfa þurfa eftir þessum lögum. Má í sjálfu sér halda því fram að þau sjónarmið og þær tillögur sem fram koma í frumvarpinu gangi gegn sjónarmiðum og hugmyndum um lýðræði og opna, frjálsa umfjöllun.

Ég get hins vegar ekki látið lokið ræðu minni án þess að ítreka það sem ég hef áður sagt: Mér finnst skorta í frumvarpið umfjöllun um Ríkisútvarpið, umfjöllun um eignarhald á fjölmiðlum og umfjöllun um auglýsingar og sérstaklega fyrirferð (Forseti hringir.) ríkisins á auglýsingamarkaði. Því miður virðist mér sem frumvarpið feli í sér ákveðna uppgjöf gagnvart því að fjalla (Forseti hringir.) um þau atriði.