Fjölmiðlar

Fimmtudaginn 07. apríl 2011, kl. 15:36:22 (0)


139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[15:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir ágæta og málefnalega ræðu. Það er rétt hjá hv. þingmanni að það eru ákveðin atriði sem tengjast þessu máli sem er fyrir komið með þeim hætti, varðandi sérstaklega eignarhaldið, að sérstök nefnd sem fær það verkefni að fara yfir tillögur sem þegar liggja fyrir í þverpólitísku nefndinni frá 2005, nokkuð sem hefur nokkrum sinnum komið upp í umræðunni. Hún fær mjög skamman tíma til að skila því verki af sér og eins og ég hef nefnt hér í dag er meiri hlutinn með tillögu um að sú niðurstaða liggi fyrir fyrir 1. júní nk.

Hins vegar verður tekið á málefnum RÚV í breytingum á lögum um Ríkisútvarpið. Þar er fylgt því verklagi sem áður hefur verið beitt í tengslum við þá ágætu stofnun. Hugsunin er sú að hér eru heildarlög um alla fjölmiðla, um markaðinn í heild sinni. Það er ekki verið að taka á sérmálefnum einstakra fjölmiðla og í ljósi þess að frumvarp um RÚV er í vinnslu um þessar mundir og nýjustu upplýsingar gefa til kynna að það eigi að leggja fram til kynningar í þinginu fyrir maílok tel ég að þetta sé bitamunur en ekki fjár, sú aðferð sem menn nota til að koma öllum þessum málum fyrir. Við hv. þingmaður erum sammála um að það er lykilatriði um skipan mála á fjölmiðlamarkaðnum að það sé gott og heilbrigt jafnvægi á milli Ríkisútvarpsins annars vegar og einkamiðlanna hins vegar þannig að báðir aðilar geti þrifist.

Rétt í lokin er rétt að hnykkja á því að í 26. gr. er vel frá því gengið að fjölmiðlum sem hafa yfirlýsta stefnu um að þjóna tilteknum málstað (Forseti hringir.) er ekki skylt að lúta því að þurfa í öllu efni að miðla í sínum miðlum (Forseti hringir.) sjónarmiðum sem ganga í berhögg við þessa yfirlýstu stefnu.