Hagsmunir Íslands í Icesave-málinu

Mánudaginn 11. apríl 2011, kl. 15:35:53 (0)


139. löggjafarþing — 108. fundur,  11. apr. 2011.

hagsmunir Íslands í Icesave-málinu.

[15:35]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Við getum kannski leitað til formanns Sjálfstæðisflokksins, hann er lögfræðimenntaður og hann studdi þá samninga sem við vorum að greiða atkvæði um um síðustu helgi. Ég vænti þess að hv. þingmaður sé ekki að segja að allir þeir sem lögðu ólíkt mat honum á það hvernig hyggilegast væri að greiða atkvæði um síðustu helgi séu þar með vanhæfir. (Gripið fram í.) Nei, það er gott, og þá sé ég ekki hvert vandamálið er. (Gripið fram í.) Það liggur fyrir mjög skýr leiðsögn frá þjóðinni um það að samningatilraunum er lokið. Það mistókst að leysa málið við samningaborðið á nægilegan góðan hátt til þess að þjóðin sætti sig við. Ef til vill hefði ekki einu sinni skipt máli hve góður samningurinn var ef við lítum svo á að þetta hafi verið prinsippatkvæðagreiðsla um það hvort yfir höfuð ætti að leysa þetta með samningum eða eingöngu að láta þetta ráðast fyrir dómstólum. Allir sem hafa tjáð sig í framhaldinu hafa lýst því yfir með sama hætti, að nú verði auðvitað tekið til ýtrustu varna fyrir Ísland, fari málið þá leið, og (Forseti hringir.) ekkert látið á skorta í þeim efnum, og haft verður náið pólitískt samráð um það, m.a. og ekki síst í gegnum utanríkismálanefnd hvernig að því verður staðið.