Fjölmiðlar

Mánudaginn 11. apríl 2011, kl. 15:38:11 (0)


139. löggjafarþing — 108. fundur,  11. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[15:38]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um frumvarp til fjölmiðlalaga. Hugtakið fjölmiðlafrumvarp rifjar reyndar upp grimm átök í þessum sal á síðasta áratug sem leiddu til ákveðinnar nýsköpunar í stjórnskipunarmálum sem ekki sér fyrir endann á. Það frumvarp sem hér er á borðinu er af allt öðrum toga. Hér eru á ferðinni heildarlög sem hafa að geyma ýmsar úrbætur sem m.a. lúta að því að bæta starfsskilyrði blaða- og fréttamanna og auka trúverðugleika fréttamiðla í landinu. Hér eru mikilvæg ákvæði um aukna vernd heimildarmanna, sjálfstæði ritstjórna gagnvart eigendum fjölmiðla, vernd barna gegn skaðlegu efni og auglýsingum, gagnsæi eignarhalds á fjölmiðlum og svo mætti áfram telja. Með samþykkt þessa frumvarps yrði brugðist við nokkrum veigamestu ábendingunum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um fjölmiðlamarkaðinn á Íslandi.

Góð sátt hefur verið um málið í menntamálanefnd. Sjö af níu nefndarmönnum styðja frumvarpið en ég legg áherslu á að allir nefndarmenn, jafnt meiri hluta sem minni hluta, hafa lagt afar gott til þessa máls og tekið þátt í að móta á fjórða tug tillagna (Forseti hringir.) um breytingar á frumvarpinu. Fyrir það vil ég þakka, það er í þeim anda sem við reisum við þetta samfélag og bætum það.