Fjöleignarhús

Fimmtudaginn 14. apríl 2011, kl. 17:04:58 (0)


139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

fjöleignarhús.

377. mál
[17:04]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir þessa breytingartillögu við frumvarp til laga um breytingar á lögum um fjöleignarhús. Eins og þingmaðurinn fór ágætlega yfir í ræðu sinni hafði upphaflega staðið til að aðeins þyrfti aukinn meiri hluta til að leyfa hundahald en það endaði þannig í meðförum þingsins að einn íbúi í húsfélagi getur sett sig upp á móti gæludýrahaldi í húsinu og þannig komið í veg fyrir að aðrir íbúar fái að halda gæludýr á heimilum sínum. Ég tel að nái tillaga hv. þm. Helga Hjörvars fram að ganga verði lífið bæði skemmtilegra og fjölbreytilegra en ég tel jafnframt mikilvægt að það er þetta mikill meiri hluti sem þarf að samþykkja — fólk hefur helst áhyggjur af því, í sambandi við gæludýrahald í fjöleignarhúsum, að það geti orðið enn meira íþyngjandi að búa með fólki sem ekki sýnir öðrum virðingu í umgengni ef það heldur að auki gæludýr, og ég ber fulla virðingu fyrir þeim sjónarmiðum. Þarna verðum við að ætla að 2/3 íbúa hússins geti haft dómgreind til að meta hvort viðkomandi aðili sé hæfur til að halda dýr.

Þá vil ég líka geta þess, af því að þetta er rýmkunartillaga, þó að hún gangi ekkert óhóflega langt — ég held að það sé mikið meðalhóf í þessari tillögu þingmannsins — að verið er að skerpa á reglum, t.d. kemur hér fram að hundar og kettir megi ekki vera í sameign eða á sameiginlegri lóð nema þegar verið er að færa dýrin að og frá séreign, þau skuli ávallt vera í taumi og í umsjón manns sem hefur fulla stjórn á þeim. Og lausaganga hunda í sameign eða á sameiginlegri lóð telst alvarlegt brot samanber 4. mgr.

Ég verð að játa að mér þótti helst til langt gengið í þessum reglum og fagna því mjög þessari breytingu sem gerir það að verkum að líkur aukast á því að fólk fái að halda hunda og ketti í íbúðum sínum en gerir jafnframt meiri kröfur til þess að það sýni tillitssemi í umgengni við aðra íbúa hússins. Ég mun því styðja þessa tillögu hv. þingmanns.