139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég skal reyna að vera snöggur. Málið sem ég ætla að nefna varðar, eins og það sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson nefndi, hagsmunagæslu fyrir hönd Íslands. Fréttatilkynning sem barst frá þingi Evrópusambandsins vakti athygli fyrir fáeinum dögum þar sem m.a. var sagt frá aðildarviðræðum við Ísland. Í þeirri fréttatilkynningu er þess getið að Ísland hafi í viðræðum við Evrópusambandið lagt áherslu á að halda einhverjum af réttindum sínum til að fara með stjórn fiskveiðimála hér við land.

Hæstv. forseti. Í tilkynningunni er á ensku talað um „some control of fisheries“, einhver réttindi til að stýra fiskveiðum.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur verið spurður um þetta af fjölmiðlum og hefur gert lítið úr þessari fréttatilkynningu. Það kann vel að vera rétt að um sé að ræða einhvern misskilning af hálfu Evrópuþingmanna eða þeirra sem setja texta á blað fyrir þeirra hönd. Ég vildi hins vegar nefna þetta hér vegna þess að í öllum þessum viðræðum er afar mikilvægt að fast sé haldið á málstað Íslands. Komi upp misskilningur eins og kann að vera á ferðinni í þessu tilviki þarf að leiðrétta hann þannig að stofnanir Evrópusambandsins og þeir sem þar starfa séu með það alveg á hreinu á hvað Íslendingar leggja áherslu.