139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Mig langar til að ræða tvö mál, í fyrsta lagi þá alvarlegu stöðu sem blasir við námsmönnum á Íslandi í dag. Ríkisstjórnin hefur því miður ekkert aðhafst þegar kemur að þeirri grunnframfærslu sem námsmenn þurfa að búa við í dag, 120 þús. kr. á einstakling. Það er mun minna en fólk fær sem er á framfærslu sveitarfélags eða á atvinnuleysisbótum. Ef okkur er einhver alvara með því að hvetja fólk á þessum tímum til að stunda nám, afla sér þekkingar, verðum við að breyta þessu. Þarna finnst mér ríkisstjórnin hafa skilað auðu þrátt fyrir að við í stjórnarandstöðunni höfum reynt að hvetja til þess að staða námsmanna yrði bætt.

Í annan stað ítreka ég, í ljósi þeirrar umræðu sem fór fram í vikunni um vantraustsyfirlýsingu á ríkisstjórnina, þann skort á framtíðarsýn sem ríkisstjórnin virðist hafa í öllum þeim meginviðfangsefnum sem við ættum að eiga við í dag. Þar er ég að tala um atvinnumál. Í umræðunum í vikunni fór mestallt púður hæstv. forsætisráðherra í að ræða um fortíðina. Þegar hæstv. forsætisráðherra reyndi að varpa einhverri mynd á raunveruleikann, talaði um kraftaverk ríkisstjórnarinnar við úrlausn vanda skuldugra heimila og fyrirtækja, dró hún upp kolranga mynd af stöðu mála í dag. Við hljótum að kalla eftir því á þessum tímum að ríkisstjórnin komi með málefnalegum og kröftugum hætti inn í umræðuna í atvinnumálum. Við þurfum að fara að skapa störf í landinu og við þurfum líka að búa við stjórnvöld sem tala kjark og þor í fólk í landinu. Það er nauðsynlegt í dag. Við megum ekki gefast upp gagnvart því alvarlega ástandi sem blasir við okkur. Þess vegna hvet ég ríkisstjórnina og ríkisstjórnarflokkana (Forseti hringir.) til að hefja sókn í atvinnumálum.