139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Hér eru menn að ræða stöðu ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarsamstarfsins og vil ég segja í því sambandi að þessi ríkisstjórn á að sitja svo lengi sem hún hefur erindi. Erindi hennar er að breyta kvótakerfinu, erindi hennar er að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið því að ljóst má vera að ef Sjálfstæðisflokkurinn kemst í lykilstöðu til að leiða íslenska ríkisstjórn verður aðildarviðræðum hætt. Það kom glögglega fram í vantraustsumræðu þeirri sem var hér í fyrradag og það kom glögglega fram í viðtali við formann flokksins í útvarpinu í gærmorgun. Sjálfstæðisflokkurinn mun hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið komist hann til valda. Þess vegna ber Evrópusinnum þessa lands, fulltrúum hins hugsandi atvinnulífs, (Gripið fram í.) að koma hér og gæta að því að Samfylkingin sé áfram í lykilstöðu í ríkisstjórn Íslands. Þessi ríkisstjórn hefur líka erindi í atvinnumálum og það mun koma fram glögglega er tekst að ljúka kjarasamningum hvert útspil ríkisstjórnarinnar verður í því sambandi. Og hún hefur erindi vegna þess að við þurfum að ljúka stjórnarskrárbreytingum í þessu landi.

Það er nefnilega svo, kæru þingmenn, að hér er að birta til, þetta er allt að koma. Það versta er að baki og nú þurfum við, þau sem stýra þessari ríkisstjórn, að standa saman og klára verkefni okkar við endurreisn þessa lands, endurreisn efnahagsins. Við sjáum að hagvaxtartölur eru miklum mun betri en við höfum séð undanfarin tvö ár. Við sjáum að ferðamannastraumurinn verður í mettölum þetta árið, við erum að tala um 600 þúsund ferðamenn ef að líkum lætur. Við sjáum fyrir okkur að þorskstofninn sé að styrkjast og að væntanlega verður hægt veiða meira af þorski hér til framtíðar. (Gripið fram í.)

Við sjáum að staða Landsvirkjunar er sterk. Á landsfundi hennar í dag og í viðtali við Hörð Arnarson, forstjóra fyrirtækisins, í morgun má heyra að það er bjart fram undan hjá fyrirtækinu. Víða sér þess stað í efnahag okkar, þetta er allt að koma, það er að birta til og nú þarf ríkisstjórn og þingheimur að standa saman við að ljúka þeim brýnu verkefnum sem ég rakti hér í minni ræðu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)