139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Vegna þess að hér er verið að ræða um stöðu ríkisstjórnarinnar langar mig til að lesa hér upp orð athafnamanns sem nýverið hóf atvinnurekstur á Íslandi eftir nokkra fjarveru. Friðrik Weisshappel opnaði kaffihús í Austurstrætinu sem væri ekki í frásögur færandi nema fyrir það að hann er búinn að reka tvö eða þrjú slík á erlendum vettvangi og er kominn hingað heim með sinn atvinnurekstur, hefur hafið einhvers konar innrás sem er mjög jákvætt.

Hann segir um forustumenn ríkisstjórnarinnar:

„Þetta fólk er búið að vera að vinna hörðum höndum frá hruni kvöld og helgar, vakið og sofið við að reyna að taka til. Þú veist það kannski eins og ég að það er alltaf best að hreinsa vinnusvæðið áður en byrjað er að smíða eitthvað. Nú sýnist erlendum aðilum, sem ekki eru blindaðir af gagnrýninni sem þessi stjórn hefur mátt þola, að allt sé hér á réttri leið. Það segir ýmislegt. Það trúir því enginn heilvita maður að þær aðgerðir, skattar o.fl. sem þurft hefur að framkvæma, séu gerðar af illgirni eins og oft virðist vera trú fólks heldur af illri nauðsyn. Þau eru heldur ekki fullkomin, Steingrímur og Jóhanna, en fjandinn hafi það,“ með leyfi forseta, „ef þau eru ekki búin að lyfta grettistaki fyrir þessa þjóð á hennar verstu stund.“

Það er ánægjulegt að geta vitnað í svona ummæli. Þetta er upplifun fólks, sem hefur verið í burtu og kemur síðan hingað heim, af því sem verið er að gera á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Mér finnst full ástæða til að nýta þennan lið til að fjalla af jákvæðni um þá umræðu sem á sér stað í samfélaginu vegna þess að það er ekki beinlínis sú mynd sem dregin er hér upp af hv. stjórnarandstöðu. (Gripið fram í.)