139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi örlítið bregðast við orðum hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur sem að einhverju leyti svaraði máli mínu hér áðan. Ég ætla ekki að elta ólar við einstök ummæli hennar í því sambandi en í framhaldi af ræðu hennar, þar sem hún talaði um að allir ættu að kynna sér málin og að allir ættu að halda á málstað Íslands, spyr ég hana hvort hún telji ekki rétt að þingmenn, ráðherrar og embættismenn standi þá saman að því að leiðrétta misskilning um grundvallaratriði sem fram kemur í plöggum sem stafa frá þingi Evrópusambandsins. Það hlýtur að vera mikilvægt ef um er að ræða misskilning um skilyrði Íslands eða kröfur hvað varðar forræði á eigin fiskveiðiauðlind. Það hlýtur að vera mjög mikilvægt ef einhver misskilningur er á ferðinni í þeim efnum í þingi Evrópusambandsins, hvort sem það er hjá þingmönnum Evrópusambandsins eða embættismönnum sem þar starfa, að slíkt sé leiðrétt. Við ættum að sameinast um að leiðrétta það vegna þess að þetta er ekkert smámál. Það gera sér allir grein fyrir því að þetta er eitthvert allra mikilvægasta atriðið í viðræðum okkar við Evrópusambandið. Misskilningur um þau efni getur haft alvarlegar afleiðingar þannig að við ættum að standa saman að þessu. Að því leyti get ég tekið undir orð hennar.

Að öðru leyti vildi ég bregðast við ágætri ræðu hv. þm. Róberts Marshalls sem hér vitnaði í ágætan athafnamann áðan. Og mikið vildi ég að fleiri athafnamenn sæju tilefni til þess að setja (Forseti hringir.) á starfsemi á Íslandi. Staðreyndin er bara sú að (Forseti hringir.) miklu fleiri eru að fara út en koma heim.