139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fréttaflutningur af stjórnmálamönnum -- málstaður Íslands í ESB-umsóknarferli o.fl.

[11:03]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Í þeim erfiðu aðstæðum sem við Íslendingar búum við og hv. þm. Birkir Jón Jónsson meðal annarra hefur lýst hér í umræðunum af sínu alkunna listfengi er auðvitað mikilvægt að við höldum til haga því sem jákvætt er og gott og gengið hefur eftir. Eitt af því sem stjórnarandstaðan hefur verið ákaflega áhyggjufull yfir er að áætlanir manna um aukna tekjuöflun ríkisins með skattahækkunum hafi ekki gengið eftir. Því hafa Samtök atvinnulífsins líka haldið á lofti og jafnvel talið að tugi milljarða hafi skort á að þær áætlanir gengju eftir. Ég leitaði þess vegna sem formaður efnahags- og skattanefndar eftir því við Ríkisendurskoðun að hún færi yfir þann tekjuauka sem skattahækkanir á árinu 2010 hefðu skilað í samanburði við þær tekjuáætlanir sem lágu hér fyrir við gerð fjárlaga. Bráðabirgðaniðurstöðum skilaði Ríkisendurskoðun á fundi nefndarinnar í morgun og þær eru afar jákvæðar og þess vegna er full ástæða til að koma þeim strax til þingheims.

Áætlaður tekjuauki af skattahækkunum á árinu 2010 gekk í öllum aðalatriðum eftir. Auðvitað er um frávik að ræða en þau eru bæði til meiri tekna eins og minni tekna og í velflestum liðum getum við nú þegar fullyrt að þær áætlanir sem voru uppi um aukna tekjuöflun gengu eftir. (Gripið fram í.) Helstu frávik sem ástæða er til að nefna er að hlutdeild sveitarfélaga í tekjuskattsaukningunni hafði ekki verið tekin með í reikninginn en áætlanirnar um tekjuskattsaukninguna sjálfa hafa gengið eftir, að því er virðist af þessum niðurstöðum Ríkisendurskoðunar. (Gripið fram í: Hver sagði …?) Þá er enn eftir nokkur vinna við að greina auknar aukatekjur og það er m.a. ljóst að t.d. tekjur af aðfarargerðum sýslumanna munu ekki ganga eftir, en það er jú í sjálfu sér jákvætt hér í þessum sal vegna þess að ástæða þess er sú að við höfum beðið menn um að ganga hægar og varlegar fram gagnvart skuldugum (Forseti hringir.) heimilum og fyrirtækjum en áður var og það leiðir til lítils háttar tekjuminnkunar en í öllum aðalatriðum gekk tekjuöflun á árinu 2010 (Forseti hringir.) með skattahækkunum eftir. [Kliður í þingsal.]

(Forseti (ÁRJ): Umræðum um störf þingsins er lokið, mun fleiri höfðu beðið um orðið en komust að undir þessum lið, enda er aðeins hálftími ætlaður fyrir umræðu um störf þingsins.)