Stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013

Föstudaginn 15. apríl 2011, kl. 11:59:07 (0)


139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[11:59]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna því mjög að byggðaáætlunin sé loksins að komast í gegnum þingið. Það skiptir máli að það séu undirstöður undir þeim byggðaaðgerðum sem við erum í og þegar er lagt af stað með á grundvelli þessarar áætlunar, svo sem fjármögnun vaxtarsamninga sem eru lunginn í þessari byggðaáætlun þar sem fólk heima í héraði tekur ákvarðanir um atvinnuskapandi verkefni. Mér þykir miður ef einhverjir hv. þingmenn sjá ekki kostina við það og hafa ákveðið að styðja ekki þessa byggðaáætlun.

Mér þykir líka mikilvægt að það komi fram að þessi byggðaáætlun var lögð fram í tæka tíð. Hún hefur bara gengið treglega í gegnum þingið sem er bagalegt þar sem við erum auðvitað bundin að lögum um að skila inn byggðaáætlun á ákveðnum tíma. Loksins er þetta að takast en það hefur tekið okkur tvo vetur að koma byggðaáætluninni í gegnum þingið. (Forseti hringir.) Það hlýtur að þýða að hún sé pottþétt og að menn (Forseti hringir.) geti fylkt sér um þá áætlun.