Fullgilding Árósasamningsins

Föstudaginn 15. apríl 2011, kl. 12:44:07 (0)


139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[12:44]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er rétt sem fram kemur í andsvari hennar að það sem helst vekur athygli við frumvarpið eins og það er lagt fram er sá þáttur er lýtur að aðildinni. Í Evrópu hefur þetta verið gert með töluvert mismunandi hætti, allt frá því að gera eins og við leggjum til hér, þ.e. að hafa opna aðild, og yfir í enn þá þrengri skilyrði en við höfum haft hingað til í lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Það er nú meira að segja svo, sem mér finnst vera umhugsunarefni vegna þess að hér er stjórnarskráin opin til skoðunar, að í Portúgal og fleiri Evrópulöndum þar sem stjórnarskráin hefur verið skoðuð eða endurskoðuð nýverið til þess að gera miðað við stjórnarskrár, er opin kæruaðild varðandi fleiri þætti en náttúru og umhverfi. Þar eru líka undir til að mynda þjóðarverðmæti og almenn heilsa almennings o.s.frv. Þegar heildarhagsmunir þjóðar eru undir er litið svo á að hver og einn landsmaður eigi aðild í einhverjum skilningi. Mér finnst það spennandi, áhugaverð og mikilvæg hugsun, sérstaklega í umhverfisrétti.

Varðandi þær spurningar sem þingmaðurinn bar upp um kostnaðarhlutdeild kemur það fram í frumvarpinu og það er skoðun mín að hún eigi að vera án endurgjalds. Í frumvarpinu er þó getið heimildar til þess að innheimta gjald ef um sérstök sjónarmið er að ræða sem eru ekki í anda laganna. Það er alveg rétt hjá þingmanninum að það er matskennt í hvert skipti. Það er eitthvað sem nefndin þarf að (Forseti hringir.) leggja niður fyrir sér og eitt af því sem þarf að skoða vel.