Fullgilding Árósasamningsins

Föstudaginn 15. apríl 2011, kl. 12:46:25 (0)


139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[12:46]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka spurninguna um gjafsókn til dómstóla: Uni kærandi ekki niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar er þá um að ræða opinn tékka frá ríkinu?

Ég hef gagnrýnt það mjög eftir að ég tók sæti á Alþingi að hér kemur fram frumvarp eftir frumvarp sem hefur verulegan kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð. Með frumvarpi þessu er lagt til að úrskurðarnefndin skuli vera skipuð sjö mönnum og að formaður nefndarinnar skuli jafnframt vera forstöðumaður hennar. Verið er að leggja niður nefnd á móti. Ég bendi jafnframt á að það er mikill kostnaðarauki því að það kostaði ríkissjóð á bilinu 40–45 milljónir á ári að hafa úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarnefndar en nú á að sameina nefndir, gera þær að einni, má segja. Áætlað er að samanlagt muni það kosta 60 milljónir á ári. Þá er ég bara að tala um starf nefndarinnar en ekki ef mál fer fyrir dómstóla eða annað slíkt. Ég hef áhyggjur af því.

Ég gagnrýni líka að það á ekki að auglýsa eftir starfsfólki þarna inn heldur eiga þeir sem nú starfa fyrir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingamála að fá sjálfkrafa starf hjá þessari nefnd. Ég gagnrýni það mjög mikið á tíma mikils atvinnuleysis. Er ekki fullvel í lagt, hæstv. umhverfisráðherra, að þenja báknið út nú á tímum? Fram kemur að að nú þegar séu 3,7 stöðugildi hjá úrskurðarnefnd um skipulags- og byggingamál en áætlað er að það þurfi að ráða tvo löglærða aðila til úrskurðarnefndar og bæta að auki við hálfu stöðugildi (Forseti hringir.) ritara. Er ekki komið nóg af fjáraustri ríkissjóðs í nefndastörf og nefndasetur og úrskurðarnefndir? Ég ítreka líka spurninguna varðandi dómstólana.