Fullgilding Árósasamningsins

Föstudaginn 15. apríl 2011, kl. 13:45:37 (0)


139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[13:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er tvennt í ræðu síðasta hv. ræðumanns sem ástæða er til að veita athygli. Annars vegar það sem hann sagði, að réttur almennings til aðkomu að ákvörðunum á sviði umhverfis- og skipulagsmála væri allvíðtækur hér á landi — ég trúi því sem hv. þingmaður sagði að hann sé betur tryggður hér að mörgu leyti en víða annars staðar. Hitt atriðið sem skiptir máli í þessu sambandi er að afar margt sem leiða má af Árósasamningnum er í raun þegar í íslenskum rétti. Þar af leiðandi hlýtur athygli okkar fyrst og fremst að beinast að því sem við getum sagt að megi telja til nýmæla í þessum frumvörpum. Ég ætla að þessu sinni að láta vangaveltur út af úrskurðarnefndinni liggja á milli hluta. Ég get tekið undir þau sjónarmið sem áður hafa komið fram í umræðunni, að úrskurðarnefnd á þessu sviði eins og raunar annars staðar verður að búa við þannig starfsaðstæður að hún geti leyst störf sín vel af hendi og á skikkanlegum tíma. Við þekkjum það að frestir hafa ekki verið virtir í afar mörgum málum sem farið hafa í gegnum kæruferli og það er auðvitað bagalegt bæði fyrir þá sem kæra og þá sem kærðir eru. Það er óheppilegt að mál dragist vegna þess að það stjórnvald sem á að fjalla um viðkomandi málaflokk hefur ekki mannskap eða fjármuni til að vinna innan þess tímafrests sem lög kveða á um. Það er mikilvægt að við því sé brugðist í samræmi við þær breytingar sem verða á fyrirkomulaginu, verði frumvörpin sem hér um ræðir að lögum.

Það atriði sem ber hæst í þessari umræðu er það sem við getum kallað „actio popularis“, almennur málskotsréttur almennings, án þess að sýnt sé fram á tilgreinda lögvarða hagsmuni af niðurstöðu máls. Eins og komið hefur fram í umræðunni nú þegar er með frumvörpunum gengið lengra en nauðsynlegt er samkvæmt Árósasamningnum. Það liggur fyrir og er ekki umdeilt að hægt er að innleiða ákvæði hans hvað þessi atriði varðar með mismunandi hætti. Það hefur verið gert með mismunandi hætti í þeim löndum sem eiga aðild að samkomulaginu. Það liggur líka fyrir að hér er gengið langt í þá átt að tryggja hinn almenna málskotsrétt miðað við það sem gerist annars staðar. Ég hef ekki aðrar upplýsingar í þeim efnum en lesa má út úr almennum athugasemdum við frumvarpið sem liggur fyrir en það hlýtur að verða skoðað í málsmeðferð umhverfisnefndar hvernig aðrar þjóðir hafa leyst úr þessu máli og hvernig þær hafa uppfyllt skyldur sínar samkvæmt Árósasamkomulaginu með mismunandi hætti. Þá er um leið forvitnilegt að velta því fyrir sér hvernig þær þjóðir sem eiga aðild að samkomulaginu, kannski sérstaklega þær þjóðir hafa leyst það sem búa við lagahefð og rétt sem eru líkust okkar fyrirkomulagi á þessu sviði.

Ég leyfi mér að nefna atriði í þessu sem finna má á bls. 16 í almennum athugasemdum við frumvarpið. Þar kemur fram að fram til þessa hafi ekkert Norðurlandanna farið þá leið sem lögð er til í frumvarpinu. Við höfum vanist því að líta einkum til Norðurlandanna þegar við fjöllum um íslenska löggjöf. Það er ekki tilviljun, það er vegna þess að lagahefð þar og lagaumhverfi að öðru leyti er líkast því sem gerist hér. Þess vegna hlýtur að vera sérstaklega mikilvægt að við veltum fyrir okkur í störfum umhverfisnefndar hvers vegna hin Norðurlöndin hafa ekki farið þá leið sem lögð er til í frumvarpinu. Það eru ákveðnar upplýsingar sem hljóta að liggja til grundvallar þegar við veltum þessum málum fyrir okkur í umhverfisnefnd. Við getum haft skiptar skoðanir um málið og við höfum fullkominn rétt til þess að vera ósammála frændum okkar á Norðurlöndum um þær niðurstöður sem þeir hafa komist að, en það getur verið forvitnilegt og gagnlegt fyrir okkur að velta fyrir okkur hvaða rök búa að baki þeirri niðurstöðu sem finna má í löggjöf þeirra.

Það er athyglisvert í þessu að sú stefna sem hér er tekin varðandi „actio popularis“ er, ef marka má texta í greinargerð með frumvarpinu, til þess að gera ný og þegar fjallað hefur verið um þessi atriði á fyrri stigum, t.d. í skýrslu 2006 og skýrslu 2009, er ekki tekin afstaða til þeirra atriða sem um er að ræða. Þar er ekki tekið af skarið. Ekki er að finna tillögur eða niðurstöðu í skýrslunum frá 2006 og 2009 í þá veru sem hér eru. Þá liggur beint við að spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvenær og hvers vegna þessi stefna var mörkuð? Ég tel að það sé gagnlegt fyrir okkur að vita það.

Áður en frumvarp þetta kom til meðferðar á þingi, áður en það var lagt fram af hæstv. umhverfisráðherra, var málið opið til umsagnar. Aðilar höfðu frest í einhvern tíma, í einhverja daga alla vega, til þess að koma á framfæri athugasemdum við efni frumvarpsins. Hæstv. umhverfisráðherra getur væntanlega greint frá því hver sá frestur var og hvenær það var sem aðilar utan stjórnkerfisins höfðu heimild til að koma á framfæri athugasemdum við það sem þá voru drög að frumvarpi. Þá er um leið eðlilegt að spyrja hæstv. ráðherra hvort tekið hafi verið tillit til þeirra athugasemda? Ég tek það fram að hæstv. ráðherra hefur að sjálfsögðu fullkomna heimild til að vera á allt annarri skoðun en þeir aðilar sem gera athugasemdir en þetta skiptir hins vegar máli í umræðunni vegna þess að eftir því sem ég best veit hafa ýmsir aðilar eðli málsins samkvæmt, bæði þeir sem koma fram fyrir hönd fyrirtækja í landinu og eins þeir sem standa fyrir framkvæmdum, gert talsvert miklar athugasemdir við frumvarpið og einkum við það atriði sem varðar hinn almenna málskotsrétt.

Ástæða þessara athugasemda er væntanlega sú að þeir aðilar sem hagsmuna hafa að gæta í þessu sambandi telja að með þeirri breytingu sem lögð er til verði ákveðin hætta á því að kærumálum fjölgi, málsmeðferðartími lengist og ferlið allt verði þyngra í vöfum. Það eru eðlilegar ástæður og áhyggjur af hálfu þessara aðila þó að þær séu ekki það eina sem þarf að hafa til skoðunar í þessum málum, langt í frá. Það eru hins vegar skiljanlegar áhyggjur, sérstaklega í ljósi þess að nú þegar, miðað við gildandi rétt, er ferlið oft og tíðum afar þungt í vöfum varðandi framkvæmdir, varðandi leyfisveitingar, varðandi ýmsar kærur á ýmsum stigum mála, á grundvelli ýmissa laga. Hér er um að ræða lagaumhverfi sem er býsna flókið og ferla sem eru býsna snúnir nú þegar. Af þeim sökum er eðlilegt að þeir aðilar sem nálgast málin frá framkvæmdahliðinni hafi talsverðar áhyggjur af breytingum sem hugsanlega geta fjölgað kærumálum. Auðvitað er ekki víst að svo verði. Eins og ráða mátti af ræðu hæstv. umhverfisráðherra áðan hafa þeir sem haft hafa áhuga á að fara í kærumál í mörgum tilvikum fundið sér leiðir til þess nú þegar miðað við gildandi lagaumhverfi, þannig að það er ekkert víst að nú verði grundvallarbreyting á, en það er þó fræðilegur möguleiki á því að afleiðingar breytingarinnar verði í þá veru.

Ég ætla að láta þetta nægja að sinni. Við hljótum að fara vandlega yfir það í umhverfisnefnd og ég hygg að innan nefndarinnar sé mikill áhugi á að taka þessi frumvörp til gagngerrar skoðunar og málefnalegrar umfjöllunar þar sem við öflum þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru og tökum afstöðu til álitamála sem uppi eru í þeim efnum.

Ég ætla að lokum að benda á að reglan um hinn almenna málskotsrétt er mjög á skjön við þær meginreglur sem eru í gildi á öðrum sviðum hér á landi. Almenna reglan er sú að í íslensku réttarkerfi, í íslensku réttarfari, eigi þeir möguleika á aðild að dómsmálum eða stjórnsýslumálum sem hafa einhverra lögvarinna hagsmuna að gæta. Það kemur fyrir að deilt er um hvað teljist mögulegir lögvarðir hagsmunir en mér hefur sýnst að ekki sé um að ræða ókleifa múra fyrir þá sem vilja koma sjónarmiðum sínum á sviði umhverfismála á framfæri, alls ekki. En ég held að það sé rétt að við áttum okkur á því að sú breyting sem lögð er til í frumvarpinu felur í sér verulega stefnubreytingu frá því sem verið hefur. Það kallar á sérstaka skoðun og sérstaka umræðu vegna þess að þarna er með tiltölulega afgerandi hætti verið að fara inn á alveg nýjar brautir í þessum efnum.

Ég ætla að ljúka máli mínu með því að rifja það upp að strax árið 2001 fjallaði réttarfarsnefnd, sem er sú nefnd sem var dómsmálaráðuneyti, nú innanríkisráðuneyti, til ráðgjafar um réttarfarsatriði, fjallaði um innleiðingu Árósasamningsins. Það er rétt að fram komi við þessa umræðu að árið 2001 fjallaði réttarfarsnefnd ítarlega um þessi atriði og komst að eftirfarandi niðurstöðu, með leyfi hæstv. forseta:

„Mælir réttarfarsnefnd ekki með því að slík breyting yrði gerð þannig að hún gengi lengra en brýna nauðsyn bæri til vegna ákvæða samningsins.“

Það er sjónarmið sem þarf að hafa í huga og hlýtur að verða skoðað á vettvangi hv. umhverfisnefndar.